142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

viðvera forsætisráðherra í umræðu.

[17:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Búin er að eiga sér stað umræða um grundvallarmál ríkisstjórnarinnar, kosningamálið sem Framsóknarflokkurinn vann sigur á. Forsætisráðherra hefur nú verið mismikið við hér í salnum. Hér hefur þingmaður eftir þingmann spurt hæstv. forsætisráðherra spurninga út í þá þingsályktunartillögu sem nú á að fara til vinnslu í þinginu og hæstv. ráðherra lætur ekki svo lítið að koma hingað í lokaræðu og svara hv. þingmönnum. Þetta er stórkostlegt hagsmunamál fyrir íslenskan almenning en ekki síður fyrir ríkissjóð og ýmislegt annað sem við eigum nú að bera ábyrgð á í þessu þingi. Mér finnst það mjög slæm nýlunda að hæstv. forsætisráðherra láti ekki svo lítið í þessu burðarmáli flokks hans og ríkisstjórnarinnar að koma hingað í lokaræðu og svara spurningum þingmanna.