142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

viðvera forsætisráðherra í umræðu.

[17:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir umkvörtunarefni hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur vegna þess að fyrr í dag heyrðum við nokkrir þingmenn hæstv. forsætisráðherra segja í andsvari að hann mundi svara nánar ákveðnum spurningum í lokaræðu sinni. Það voru fleiri en ég sem heyrðu það og þess vegna gerði ég ekki kröfu um það þegar ég flutti mál mitt áðan þar sem ég var með beinar spurningar til hæstv. forsætisráðherra að hann kæmi hingað, heldur bara að spurningunni yrði komið á framfæri við hann þannig að hann hefði hana þá með í þessari boðuðu lokaræðu.

Ég geri við það alvarlegar athugasemdir vegna þess að ég vil ekki þurfa að taka upp á því sem mér hefur þótt plagsiður að láta alltaf kalla menn til og þeir sitji í sæti við hliðina á mér undir ræðum mínum. En ef þetta er lenskan, að menn standi ekki við það sem þeir boða þá hljótum við þingmenn að þurfa að hafa það í huga.