142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

viðvera forsætisráðherra í umræðu.

[17:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefur maður saknað ýmissa ráðherra við umræðuna í dag og er athyglisvert að formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra skuli ekki taka þátt í umræðunni í jafn gríðarlega miklu útgjaldamáli og hér er á ferðinni. Það er eins og þetta sé einhvern veginn einkamál Framsóknarflokksins í þingsalnum.

Það er rétt sem fram kemur hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, að ég heyrði hæstv. forsætisráðherra greina frá því í ræðustóli að hann mundi koma hér í lok umræðunnar og bregðast við því sem fram hefði komið. Þegar ég var inntur eftir því af þingmönnum mínum hvort hann væri ekki viðstaddur umræðuna eða yrði til svara í ræðum þeirra þá upplýsti ég þá um að hann mundi koma hingað í lok umræðunnar og bregðast við því sem til hans væri beint. Ég verð að segja að það er miður að þetta fari svona af stað, að orð hæstv. forsætisráðherra um að hann muni svara þingmönnum með þessum hætti haldi ekki í stærsta máli ríkisstjórnarinnar á fyrstu dögum þingsins. Þetta mætti sannarlega vera betra.