142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir þessa umræðu sem er gríðarlega mikilvæg. Atvinnumálin eru málefni sem varða okkur öll vegna þess að öflugt atvinnulíf er það sem tryggir okkur vöxt og aukna velferð. Þess vegna er ánægjulegt að lesa þá kafla í samstarfssáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka þar sem fjallað er um atvinnumál vegna þess að sáttmálinn ber þess augljós merki að mikil áhersla verður lögð á öflugt atvinnulíf, fjölbreytni og að styrkja og fjölga þeim stoðum sem við byggjum á.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra Ragnheiðar E. Árnadóttur eru málin hér í góðum höndum og er ánægjulegt að sjá með hvaða hætti farið er af stað. Varðandi þá umræðu sem átt hefur sér stað, sérstaklega þá af hálfu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um rammaáætlun, þ.e. að það komi hv. þingmanni á óvart að við séum með það á stefnuskránni að endurskoða rammaáætlun, þá á það ekki að koma neinum á óvart. Hefðu menn hér í þinginu á síðasta kjörtímabili stillt sig um að setja pólitísk fingraför á málið á lokametrunum og haldið sig við þá sátt sem ætlunin var að skapa með því að koma verkefninu af stað á sínum tíma þá værum við ekki í þessum sporum í dag. Hefðu menn fylgt ferlinu allt til enda eins og lagt var til í upphafi þá værum við ekki í þessari stöðu. Það var rætt þegar málið tók U-beygju í þinginu undir stjórn fyrrverandi ríkisstjórnarflokka þannig að að sjálfsögðu þarf að skoða málið upp á nýtt.

Herra forseti. Það er ljóst að fjölbreytnin verður í fyrirrúmi. Það er ljóst að áherslan er á að efla það sem við eigum og laga það sem er bilað. Ég fagna þeirri áherslu ráðherrans, hún er skýr og núna höldum við áfram og tækifærin liggja fyrir okkur. Við þurfum bara að nýta þau.