142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef eiginlega ekki skilning á því því að ég átta mig ekki alveg á því. Það er auðvitað hæstv. ríkisstjórnar að svara því hvernig hún ætlar að mæta þessu tekjutapi. En söguna kann ég held ég sæmilega. Hún er þannig að þegar við vorum að stilla upp ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma vorum við það hógvær að við gerðum ráð fyrir um 9–9,5 milljarða kr. tekjum af veiðigjöldum inn í þá áætlun. Þess vegna töldum við okkur geta látið eftir okkur að reikna a.m.k. 4,5 milljarða af viðbótartekjum sem grunn inn í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og stór hluti þeirra fjármuna átti að fara í samgönguframkvæmdir, Norðfjarðargöng, endurnýjun Herjólfs, Landeyjahöfn og fleira í þeim dúr.

Sá viðbótartekjuauki umfram ríkisfjármálaáætlunina eins og hún stóð á árunum 2011–2012 er því allur farinn með þeirri lækkun sem hér er boðuð og þá verður auðvitað að finna fjármagn fyrir því annars staðar eða það leiðir til aukins halla á ríkissjóði. Einu trúi ég ekki og það er að mönnum detti í hug að hætta við Norðfjarðargöng, enda verður það vonandi alls ekki hægt eftir daginn í dag.