142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[13:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þingmanni, sem nú situr á forsetastóli, til hamingju með að vera kominn í forsætisnefnd og taka hér við stjórn þingfundar í fyrsta skipti. Það var ekki seinna vænna að hv. þingmaður kæmist í þennan virðulega stól.

Til umfjöllunar er frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald, lækkun veiðigjalda. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur mælt fyrir því máli sem getið er um í stefnuyfirlýsingu núverandi hæstv. ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Fyrst vil ég segja að almennt er það svo að nýrri ríkisstjórn er gefið nokkurt svigrúm fyrstu dagana og vikurnar og stjórnarandstaða er yfirleitt þannig úr garði gerð að hún bíður að minnsta kosti og sér hvað ný ríkisstjórn ætlast fyrir í helstu málum áður en hin pólitísku átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sem alltaf verða og eru eðlileg í lýðræðissamfélagi, hefjast. Það er samt sem áður eftirtektarvert á þessu sumarþingi, fyrsta þingi sem ný hæstv. ríkisstjórn mætir til, hvaða mál fá sérstakan forgang. Ekki síst í ljósi þeirrar miklu umræðu sem varð í aðdraganda kosninganna og í kosningabaráttunni um hvaða mál væru brýnust í samfélaginu, sem brýnast væri að taka á.

Það er auðvitað skammt að minnast mikilla yfirlýsinga frá núverandi stjórnarflokkum, ekki síst frá Framsóknarflokknum, um hvað væri brýnt að ráðast í þegar í sumar. Reyndar er það þannig í umræðu um ýmis mál hér það sem af er þessu þingi að ýmsir forustumenn Framsóknarflokksins, ekki síst hæstv. forsætisráðherra, hafa í raun farið aðeins undan í flæmingi og talað um að gefa verði ríkisstjórninni svigrúm og tíma. Í kosningabaráttunni mátti reyndar skilja málin, umræðuna og loforðin svo að þetta væri allt klappað og klárt, menn vissu nákvæmlega hvað þeir ætluðu að gera og hvernig, einkum og sér í lagi að því er varðar aðgerðir í þágu heimilanna, hvað þyrfti að gera til þess að létta byrði skuldugra heimila.

Flestir flokkar, ef ekki allir, tóku undir að mikilvægt væri að beina sjónum sérstaklega að því í upphafi nýs kjörtímabils. Þá bregður svo við að þau mál sem koma inn á þing af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er mjög loðin þingsályktunartillaga um að setja mál í nefnd, einkum og sér í lagi vegna þess að það þurfi að vanda svo vel undirbúning að því hvernig eigi að haga lofuðum skuldalækkunum. Þegar kemur að máli eins og því sem er til umræðu, um milljarða afslátt á veiðigjaldi eða lækkun á veiðigjaldi til útgerðarinnar í landinu, bregður svo við að ekki þarf sérstakar nefndir eða yfirlegu til þess að henda því upp í frumvarpsform og koma inn í þingið.

Virðulegur forseti. Það er bersýnilegt hver áherslumál hæstv. núverandi ríkisstjórnar eru hvað þetta snertir. Þau birtast í þeim málum sem lögð eru fyrir þingið, lækkun á skatttekjum, lækkun á gjöldum til útgerðarinnar. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra boðaði það í einni ræðu sinni að fjárfestingaráætlun fyrrverandi hæstv. ríkisstjórnar væri slegin af, sem var þó sett fram í því augnamiði að auka umsvif í hagkerfinu, stuðla að hagvexti. Að sjálfsögðu vekur það upp spurningar um það á hvaða leið ríkisstjórnin ætlar að vera.

Það er hægt að nálgast umræðu um málið sem um ræðir úr ólíkum áttum. Eðlilega munu sumir hv. þingmenn fjalla sérstaklega um einstök efnisatriði og sökkva sér á dýptina í málið. Það verður ugglaust þannig þegar það kemur til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd að þeir þingmenn sem þar sitja muni kafa á dýptina í málið. Það er líka hægt að nálgast málið út frá, við skulum segja, almennum prinsippum og ég hef hugsað mér að gera það. Ég hef ekki átt sæti í atvinnuveganefnd, átti það ekki á síðasta kjörtímabili. Ég var reyndar varamaður þar en tók ekki sérstaklega þátt í umfjöllun á vegum nefndar um þessi mál þegar þau voru þar til umfjöllunar. Ég hef því hugsað mér að ræða málið út frá nokkrum prinsippum.

Fyrsta prinsippið er í raun og veru auðlindaprinsippið, þ.e. hvernig við lítum á sameiginlegar auðlindir. Eða lítum við á auðlindir okkar sem sameiginlegar? Það er grundvallarspurning. Í umræðum til dæmis á síðasta þingi um stjórnarskrána var auðvitað mikið rætt um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, að binda í stjórnarskrá að auðlindir okkar, þar með talið fiskstofnarnir, væru sameign þjóðarinnar. Það stendur að vísu í lögunum um stjórn fiskveiða en hefur það verið þannig í reynd?

Ég hygg að allir flokkar hafi lýst því yfir að þeir vilji ákvæði í stjórnarskrá um að fiskurinn í sjónum ásamt öðrum auðlindum séu sameign þjóðarinnar, en þegar hefur komið að því að koma því fyrir í stjórnarskrá hefur vafist fyrir mörgum að standa að slíku, ekki síst Sjálfstæðisflokknum.

Við erum þeirrar skoðunar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að mjög mikilvægt sé að stjórnarskrárbinda sameign þjóðarinnar á auðlindum okkar, þar með talið sjávarauðlindinni. Það er mikilvægt prinsipp og því tengist að sjálfsögðu sú renta sem eðlilegt er að greinin sem nýtir auðlindina greiði þjóðinni fyrir afnot sín af viðkomandi auðlind. Þannig tengist það að sjálfsögðu því máli sem er til umfjöllunar um veiðigjaldið. Er eðlilegt að sjávarútvegurinn greiði tiltekið framlag til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlind sinni og hvert á þá framlag greinarinnar að vera? Það er eðlilegt að menn geti deilt um það eða haft ólíkar skoðanir á því hversu hátt framlagið á að vera og hvernig það er útfært. Það er ekkert að því að menn takist á um það, en ég verð að segja að frá mínum bæjardyrum séð teljum við í mínum flokki mikilvægt að sjávarútvegurinn skili framlagi sínu til þjóðarinnar með einhverjum sanngjörnum og eðlilegum hætti.

Hér er lagt til að veiðigjöldin verði lækkuð og eftir því sem ég fæ best séð af gögnum málsins er lækkunin fyrst og fremst á stórútgerðirnar. Um að ræða á fjórða milljarð kr. á þessu ári og á sjöunda milljarð á næsta ári. Það eru 10 milljarðar. Þetta skiptir verulegu máli.

Ef ég tók rétt eftir í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talaði hann um að það væru að vísu dæmi um að litlar útgerðir fengju lækkun, en ég fæ ekki alveg séð það í útfærslunni hér eða í gögnum málsins í athugasemdum við þetta lagafrumvarp. Hæstv. ráðherra skýrði reyndar ekkert frekar hvað væri þá þar á ferðinni. Það kann vel að vera að hægt sé að finna slík dæmi en mér virðist að í öllum meginatriðum sé það stórútgerðin sem er að fá lækkun á veiðigjaldi sínu. Þetta eru miklar fjárhæðir sem er um að ræða í samhengi ríkisfjármálanna og það er annar þáttur almenns eðlis sem mér finnst að þurfi að ræða þetta mál í, þ.e. samhengið við ríkisfjármálin.

Við vitum auðvitað að við höfum á undanförnum árum búið við mjög þröng skilyrði í ríkisfjármálum okkar. Við höfum verið að takast á við efnahagshrun og afleiðingar þess með miklu tekjutapi fyrir ríkissjóð sem er sá sjóður sem við göngum í til þess að greiða fyrir samfélagsþjónustuna, sameiginlegan rekstur hins opinbera, velferðarþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið, löggæsluna, samgöngurnar og þannig koll af kolli. Ríkissjóður má ekki við miklu um þessar mundir, hann má ekki við miklum skakkaföllum.

Í kosningabaráttunni lögðum við vinstri græn áherslu á að halda yrði áfram ábyrgri stjórn ríkisfjármála en að á komandi kjörtímabili mundi engu að síður, ef vel yrði haldið á málum, skapast svigrúm til þess að styrkja og efla grunnstoðir okkar samfélagsþjónustu, heilbrigðisþjónustuna, velferðarkerfið og skólakerfið einkum og sér í lagi. Þá má ríkissjóður ekki við tekjutapi af þeirri stærðargráðu sem er lagt upp með hér.

Þetta er ekkert eina málið. Hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi sem ég hygg að hafi verið fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar. Það var frumvarp um að falla frá hækkun á virðisaukaskatti á gistingu sem er einn þáttur ferðaþjónustunnar. Þau fyrstu mál sem ríkisstjórnin er að koma með inn hníga í þá átt að draga úr tekjum ríkissjóðs. Síðan heyrum við í umræðunni að á vettvangi ríkisstjórnarinnar sé verið að ræða niðurskurð á ýmsum grundvallarþáttum eins og í heilbrigðisþjónustu. Tannlæknaþjónustan var nefnd sérstaklega en ég hygg að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi sett undir þann leka í yfirlýsingum á síðasta sólarhring og ég vona að það haldi.

Margt er undir í ríkisrekstrinum sem gæti orðið niðurskurði að bráð þegar tekjurnar eru dregnar saman með þessum hætti. Hverjir eru það sem munu fá þennan afslátt? Eins og ég segi er það fyrst og fremst stórútgerðin. Ég vil segja í því samhengi að það kann vel að vera að skynsamlegt hafi verið eða nauðsynlegt að gera breytingar á innbyrðis hlutföllum á uppsjávarveiðum annars vegar og botnfiskveiðum hins vegar, hlutdeild þeirra innbyrðis, en það eitt og sér réttlætir ekki að menn gefi afslátt á veiðigjaldinu í heild sinni upp á marga, marga milljarða að mínu viti.

Allar tilfærslur eða breytingar á innbyrðis hlutföllum hefðu átt að ganga út frá því að veiðigjaldið skilaði eftir sem áður sambærilegu inn í ríkissjóð. Hér er farin önnur leið, sú leið að lækka tekjur ríkissjóðs, gefa afsláttinn inn í þessa grein sem ég held að flestir séu sammála um að á heildina litið sé vel aflögufær. Ef horft er á framlegðina í greininni er hún vel aflögufær og hún á að skila tekjum inn í sameiginlega sjóði okkar landsmanna vegna þess að hún hefur afnot af auðlind sem við eigum sameiginlega.

Síðan vekur það auðvitað athygli í þessu frumvarpi að hæstv. sjávarútvegsráðherra er falið mikið vald með reglugerðarheimildum. Það segir til að mynda í 1. gr. frumvarpsins að ráðherra sé heimilt að ákveða aðra gjalddaga en liggja fyrir. Það er líka talað um það í 2. gr., með leyfi forseta, að „sérstakt þorskígildi hverrar fisktegundar, sbr. 2. mgr., skal ákveðið af ráðherra með reglugerð“. Það hefur hingað til byggst á útreikningum, sérstökum formúlum frá Fiskistofu. Nú fær ráðherra þetta vald. Ráðherra er falið mikið vald og ég hlýt að velta því fyrir mér, af því að hæstv. ríkisstjórn hefur sagt að hún vilji fara mjög gaumgæfilega yfir allar útfærslur að því er varðar skuldamál heimilanna með tilliti til stjórnarskrárinnar og annað slíkt: Hefur þetta verið skoðað með tilliti til valdheimilda sem stjórnarskráin mundi heimila? Er ekki verið að seilast býsna langt í að gefa hæstv. ráðherra vald til þess að ákveða hluti sem eðlilegt væri að löggjafinn kæmi að með miklu afdráttarlausari hætti? Ég velti því fyrir mér. Mér finnst mikið umhugsunarefni hvernig er staðið að þessu og mörgum spurningum ósvarað og hv. atvinnuveganefnd verði þá að fara gaumgæfilega ofan í það.

Ég tel líka mikilvægt að fjallað verði um málið í fleiri þingnefndum, eins og t.d. fjárlaganefnd, vegna áhrifanna á afkomu ríkissjóðs.