142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[13:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra hefur nú mælt fyrir einu af forgangsmálum sínum á sumarþingi, máli sem felur í sér umtalsverða tekjulækkun fyrir ríkissjóð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir, eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag, að lög um veiðigjöld komi ekki til fullra framkvæmda, einkum er varðar sérstakt veiðileyfagjald, og mælst er til að teknir verði upp sérstakir þorskígildisstuðlar í stað venjulegs þorskígildis samkvæmt 19. gr. laga um stjórn fiskveiða. Einnig er í frumvarpinu heimild til að breyta gjalddögum.

Skrifstofa opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu gerir grein fyrir því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir verði frumvarpið að lögum. Tekjutapið er umtalsvert, 3,2 milljarðar kr. á árinu 2013 og 6,4 milljarðar á árinu 2014. Þetta er tekjutap sem ríkissjóður má ekki við, virðulegi forseti, og þegar við bætist forgangsmál hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á þessu sumarþingi, sem er að halda neyslusköttum á erlenda ferðamenn áfram lágum, verður tekjutapið á þessum tveimur forgangsmálum hægri stjórnarinnar um 8 milljarðar kr. Fyrir þá upphæð má til dæmis reka Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem í eru 1.100 nemendur, embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo dæmi séu tekin úr minni heimabyggð en við ættum samt afgang til þess að reka sjúkrahúsið á Akureyri.

Það er mikilvægt að setja tekjutapið í þetta samhengi. 8 milljarðar eru há upphæð og ef það á að skera niður fyrir henni geta menn séð þegar dæmi eru tekin hvað það þýðir fyrir samfélögin. Enda hafa forsvarsmenn hægri stjórnarinnar boðað að öll útgjöld verði endurskoðuð. Þeir hafa boðað til blaðamannafundar og sagt: Hér er gat sem þarf að brúa, við þurfum að taka öll gjöldin og fara inn í hvert ráðuneyti og velta þar við steinum og athuga hvað hægt er að gera til þess að brúa bilið — og koma síðan inn í þingið með frumvörp sem gera gatið enn stærra.

Þetta er undarleg fjármálastjórn, hæstv. forseti, og ég hef verulegar áhyggjur af því þegar forsvarsmenn hægri stjórnarinnar nefna sérstaklega í þessu sambandi fæðingarorlof, fríar tannlækningar barna og aðstoð við skuldug heimili með lánsveð sem pósta sem íhuga þurfi að rýra. Við þessari ótrúlegu forgangsröðun í þágu þeirra sem allra síst þurfa á stuðningi ríkisins að halda mátti að vísu búast af hálfu hægri stjórnarinnar þó að hún gangi lengra í sérhagsmunagæslunni en ég hafði gert ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar gera að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðsla um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár í október síðastliðnum leiddi í ljós afgerandi stuðning þjóðarinnar við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum, að nýtingarrétti verði úthlutað til ákveðins tíma gegn fullu gjaldi og af gegnsæi og hlutlægni. Fylgja þarf þeirri niðurstöðu eftir og innleiða heildstæða auðlindastefnu á forsendum sjálfbærrar þróunar þannig að þjóðin njóti í raun arðsins af auðlindum sínum. Álagning veiðigjalds sem tekur mið af reiknaðri auðlindarentu í sjávarútvegi er skref í þá átt að skipta umframarðinum sem sérleyfi til nýtingar verðmætrar auðlindar í þjóðareign skapar, umframarði sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst. Líta þarf á kostnað vegna sérleyfis eins og kostnað við önnur aðföng við rekstur útgerðarinnar. Sá kostnaður á ekki að miðast við stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig heldur byggjast á viðmiðum sem varða greinina í heild. Þannig er auðlindagjaldið hugsað í lögum um veiðigjald.

Kostir auðlindagjalda umfram aðra skattheimtu eru ótvíræðir. Þar er umframhagnaður eingöngu skattlagður og ákvörðun gjaldsins tekur ekki mið af hegðun hvers og eins fyrirtækis, t.d. hvort þau eru vel eða illa rekin hvert um sig, heldur er gjaldið fundið út sem hlutfall af umframhagnaði greinarinnar í heild. Í góðu árferði, eins og útgerðin hefur búið við undanfarin ár, ætti auðlindagjaldið að vera hátt en í verra árferði yrði það lægra. Þannig má segja að auðlindagjaldið gæti verið sveiflujafnandi ef það er til dæmis hátt þegar krónan er veik en lægra þegar krónan styrkist.

Til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind þjóðarinnar væri best að nýta markaðslögmálið. Best væri ef allur fiskur færi á markað og ákveðið hlutfall markaðsverðs væri gjald fyrir sérleyfið. Þar sem slíkar aðstæður eru því miður ekki til staðar hér á landi er næstbest að láta sérfræðinga meta út frá bestu fáanlegum upplýsingum auðlindarentuna í greininni og leggja auðlindagjaldið á sem ákveðið hlutfall af henni. Versta leiðin, virðulegi forseti, er að fela stjórnmálamönnum að ákveða gjaldið því að í þeirri tilhögun býr áhætta og spillingargildra.

Í lögum um veiðigjald er gert ráð fyrir að allir greiði jafnt gjald fyrir þorskígildi nema lítil fyrirtæki sem greiða að jafnaði lægra gjald sökum þess að af fyrstu 30 tonnum hverrar útgerðar greiðist ekkert gjald og af næstu 70 tonnum hálft gjald. Ef hæstv. ráðherra meinar eitthvað með orðum sínum um sérstakar áhyggjur af minni útgerðum hefði hann lagt til að þessi gjaldfrelsismörk yrðu hækkuð en legði ekki til aðrar breytingar. Sú leið sem lögð er til með frumvarpinu gefur stóru fyrirtækjunum mikinn afslátt. Frumvarpið sem hæstv. ríkisstjórn ætti að leggja fram í stað þess sem hér er er frumvarp um heimild til upplýsingagjafar svo nefnd um veiðigjald geti reiknað og fundið út hvert gjaldið ætti að vera miðað við auðlindarentuna, fundið út hlutfall af henni og reiknað út gjaldið.

Gjaldtaka fyrir olíuvinnslu í Noregi fer eftir sömu hugmynd og er í lögum um veiðigjald. Þar myndast mikil auðlindarenta og hún er skattlögð með auðlindarentusköttum. Í norsku vatnsafli myndast einnig töluverð auðlindarenta. Hún er einnig skattlögð með auðlindarentuskatti sem nemur 58% af hagnaði umfram eðlilegan hagnað og til viðbótar því gjaldi eru greidd nýtingargjöld til sveitarstjórnarstigsins. Það er ákaflega skynsamlegt af okkur á Íslandi að sækja reynslu og fyrirmyndir hvað þetta varðar til Noregs. Norðmenn hafa reynsluna, hafa rekist á vandræðin og leyst úr þeim.

Ég tel þá hugmynd að hluti veiðileyfagjaldsins hér á landi renni til sjávarbyggða afar skynsamlega og sanngjarna. Sveitarfélögin hafa þurft að færa fórnir og bera kostnað vegna kvótakerfisins. Veiðileyfagjaldið ætti að hluta að renna til sjávarbyggða og stuðla þannig að bættri búsetu á þeim stöðum. Sjávarplássin hafa myndað með sér samtök sem krefjast hlutdeildar í auðlindagjaldinu og þá kröfu styð ég heils hugar.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka fyrstu ræðu minni um þetta mál með því að lýsa andstöðu minni við breytingarnar sem boðaðar eru á veiðigjaldinu og áhyggjum mínum af afleiðingum tekjutapsins sem ríkissjóður verður fyrir af þeirra völdum. Nær hefði verið að hækka veiðigjaldið í því árferði sem útgerðin býr við, en hún býr nú við meiri framlegð en nokkru sinni þrátt fyrir veiðigjaldið eins og fram hefur komið í umræðum hér í dag.

Hæstv. ríkisstjórn ætti frekar að tryggja að ríkissjóður njóti beinna tekna af auðlindinni, fyrir hönd fólksins í landinu, og stuðla þannig að aukinni velsæld og bættum innviðum landsins.

Ég legg einnig til, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að frumvarpinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar út af því tekjutapi sem boðað er í frumvarpinu og því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir. Verði frumvarpið að lögum er nauðsynlegt að fjárlaganefnd fái það í hendurnar og beri það saman við væntanlega yfirferð yfir stöðu ríkissjóðs, bæði tekju- og gjaldahlið.