142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breytt stefna Framsóknarflokksins í velferðarmálum.

[13:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég vil benda á að hér er líka liður á dagskrá þingsins sem heitir störf þingsins. Eflaust væri hægt að ræða undir þeim lið við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um orð hennar og áherslur.

Ég vil hins vegar taka það fram — og ég veit það á grundvelli mikils og góðs samstarfs við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur — að henni er mjög umhugað um velferðarkerfið og ég held að það einkenni alla þá þingmenn sem sitja hér. Ég hef margítrekað sagt það hér í ræðustól og víða annars staðar að ef það er eitthvað sem einkennir almennt íslenskt samfélag er það áhersla okkar á mikilvægi velferðar, óháð því hvort við teljum okkur tilheyra vinstri eða hægri flokkum eða flokkum þar á milli.

Hér var haldin stór ráðstefna í tilefni þess að við höfðum útskrifast úr sérstöku verkefni í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það vakti athygli mína að starfsmennirnir þar sögðust hafa fundið einstaka samstöðu um það hér á Íslandi að standa vörð um velferðina, um það að velferð skipti verulega miklu máli. Þeir virtust ekki hafa átt því að venjast í þeim löndum sem þeir höfðu farið inn í og starfað í.

Ég held að það muni heldur aldrei koma að því að nokkur ráðherra sem fer með velferðarmálin komi til með að segja að nægur peningur sé til í það sem snýr að velferðinni. Þessi ráðherra verður ekki sá fyrsti til að segja það.