142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Mér hefur ekki fundist það vera neitt sérstaklega erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að ríkisfjármálin séu, miðað við allt það sem á hefur gengið í íslensku samfélagi á undanförnum árum, í járnum og hljóti að vera í járnum. Það áttu náttúrlega ótrúlegir atburðir sér stað hér á landi fyrir nokkrum árum, sem höfðu gríðarleg áhrif á stöðu ríkissjóðs. Mér og okkur í Bjartri framtíð kom því á óvart umræðan í kosningabaráttunni sem var stundum einhvern veginn á þeim nótum að það væri til mikið svigrúm í ríkisrekstrinum til að fara í ýmislegt, t.d. skattalækkanir.

Maður þarf ekki annað en að minna sig á að aðalumsvif ríkissjóðs um þessar mundir eru að greiða vexti af lánum til að komast að þeirri niðurstöðu að staðan hlýtur að vera í járnum. Það er ekki eftirsóknarverð staða að vera með um 90 milljarða kr. þannig reikning á ári hverju. Það er óviðunandi og hlýtur líka að fá fólk til að komast að þeirri niðurstöðu að slík staða sé viðkvæm. Vaxtastig á þessu láni getur breyst og hefur þar með gríðarleg áhrif á stöðu ríkissjóðs.

Ég hef því ekki verið almennilega í tengslum við þá umræðu að mikið svigrúm sé til skattalækkana. Ég hef líka talið að í slíkri stöðu þar sem svo mikil viðkvæmni ríkir sé sérstaklega mikilvægt að lögð sé fram einhver áætlun til langs tíma um ríkisfjármál. Ég sakna þeirrar áætlunar. Ég sakna þess að geta séð í stefnu ríkisstjórnarinnar núna hver áætlunin sé. Hvernig á að lækka skuldirnar? Hvernig á að einfalda skattkerfið? Hvernig á að fá tekjur af auðlindum?

Ég held að það séu ýmsar leiðir sem hægt er að fara. Ríkisstjórnin hefur sýnt aðeins á spilin og ég er ekki mjög hrifinn af því sem ég hef séð. Það eru skattalækkanir á ferðaþjónustu. Þegar er búið að draga í land fyrirhugaða skattahækkun. Það var kannski ágætt að gera það, en þarna verður ríkið af 1,5 milljörðum miðað við útreikninga fjárlagaskrifstofunnar og segir beinlínis í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að það sé ekkert fyrirliggjandi um hvernig eigi að fylla upp í þetta gat. Þetta finnst mér dæmi um óviðunandi vinnubrögð í viðkvæmri stöðu.

Síðan er veiðigjald lækkað og þeim rökum er beitt að það eigi að auka umsvif í greininni og auka fjárfestingar. En þetta veiðigjald er nýtt, það hefur ekki verið lagt á greinina áður og þar af leiðandi er varla því um að kenna að fjárfesting hefur verið lítil á undanförnum árum. Hér er röksemdafærsla sem mér finnst standast illa og almennt séð held ég að við getum ekki keypt það sjónarmið algjörlega umyrðalaust að skattalækkanir skapi almennt tekjur. Ég held að því sé yfirleitt þveröfugt farið, að skattalækkanir minnki yfirleitt tekjur.

Mér finnst ríkisstjórnin leggja svolítið mikla áherslu á að það sé einhvers konar viðtekinn sannleikur að skattalækkanir auki umsvif, skapi hagnað sem síðar verði nýttur til fjárfestinga og skapi þar með tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta getur virkað svona, held ég, í einhverjum tilfellum en þetta þarf að rökstyðja miklu betur. Mér finnst erfitt að sjá að þetta gangi upp sem röksemdafærsla, t.d. núna fyrir lækkun veiðigjaldsins. Ég auglýsi því eftir langtímahugsun.

Ég hefði til dæmis talið skynsamlegra miðað við umræðuna og miðað við svona ákveðinn samhljóm sem mér fannst ég skynja í kosningabaráttunni að menn færu frekar í lækkun á tryggingagjaldi. Atvinnuleysi hefur minnkað. Tryggingagjaldið var auðvitað hækkað út af mjög miklu atvinnuleysi sem hefur lækkað núna þannig að ég hefði talið að sterk rök væru fyrir því að fara frekar í lækkun á því gjaldi sem síðar mundi koma atvinnulífinu, eins og litlum og meðalstórum fyrirtækjum og fyrirtækjum í hugbúnaðargeiranum, mjög til góða og auka fjölbreytni. Í staðinn eru menn í raun og veru að minnka fjölbreytni vegna þess að það er áformað að veiðigjaldið, hluti af því, fari í fjárfestingaráætlun sem mundi gagnast sumum þeim greinum sem ég nefndi áðan en óljóst hvort af því verður.

Ég get alveg ímyndað mér að það sé skynsamlegt að lækka og jafnvel afnema stimpilgjald sem ég held að sé tekjupóstur sem sé mjög til óþurftar og að miklu meiri samhljómur sé um að afnema hann. Ég held að það þurfi að auðvelda lántakendum að njóta góðs af samkeppni á lánamarkaði.

Ég held það megi líka lækka skatta á leigu sem ég held að mundi mögulega skila ríkissjóði tekjum þegar til lengri tíma er litið og er í rauninni skattur til óþurftar núna.

Ég sakna heildarhugsunarinnar og langtímahugsunarinnar og bíð spenntur eftir því hvort ríkisstjórnin muni leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins. Það er nú unnið í nánu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ástæðan fyrir því að ég bíð spenntur eftir því hvort það verði lagt fram eru nýleg ummæli um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og afskipti hans af efnahagsmálum Íslands. Þau voru dálítið á þann veg í gær eins og hæstv. forsætisráðherra vildi ekki þau afskipti og fagnaði þeim ekki, en ég held að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í skattamálum sem síðan leiddi af sér frumvarpsdrög að breytingum á lögum um fjárreiður ríkisins hafi, miðað við það sem ég hef heyrt, verið af hinu góða. Ég held að það þurfi miklu meiri festu í þessi mál.

Ég held að við þurfum miklu betri forsendur hér inni til að geta rætt aðalatriðin, meginlínurnar og mér finnst núna það sem mér hefur oft fundist áður, að línurnar í ríkisfjármálum séu ótrúlega óskýrar.