142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni þegar þetta mál var rætt í fyrra skiptið fór ég lauslega yfir þá útfærslu sem ég hef sett fram og kynnti síðast en náði því miður ekki fram að ganga. Ég ætla því að fara aðeins betur yfir þetta, reyna það á þessum fimm mínútum, en ég vonaðist til og hélt að ráðherrann yrði hér viðstaddur til enda.

Í þeirri útfærslu sem ég setti fram þá var tillaga um reiknireglu fyrir veiðigjöld, útgerðir og vinnslu vegna aðgangs að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Í tillögu þeirri er lagt til að veiðigjöld verði innheimt sem tiltekið hlutfall af tekjum og afkomu einstakra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja í stað almenns gjalds sem reikna á út frá afkomu greinarinnar í heild, sem er auðvitað höfuðókosturinn. Útreikningar gjaldstofns og álagning munu samkvæmt tillögunni byggja á upplýsingum úr ársreikningum og skattframtölum viðkomandi félaga. Miðað er við að álagning gjaldsins fari fram með sama hætti og álagning opinberra gjalda þar sem skattstofnar eru dregnir fram í ársreikningum félaga. Þar með er ávallt verið að styðjast við nýjustu upplýsingar og ekki er verið að safna gögnum sérstaklega til að leggja á veiðigjöld með þeim kostnaði og göllum sem í því felst og ónákvæmum eftiráupplýsingum frá Hagstofu, sem er meginókostur núverandi veiðigjalda.

Tillagan gerir ráð fyrir að gjaldtakan verði þríþætt eins og ég hef áður talað um en þó tiltölulega einföld í útreikningi og framkvæmd. Að hluta yrði gjaldtakan hugsuð sem fastákveðið gjald óháð afkomu í greininni og óháð afkomu einstakra fyrirtækja, almennt veiðigjald. Þetta gjald er sambærilegt núverandi veiðigjaldi. Að auki yrði innheimt gjald sem reiknað væri af heildartekjum af veiðum og vinnslu og að lokum væri innheimt gjald sem byggði á hagnaði félaga fyrir fjármagnskostnað, svokallað EBIT. Þar sem fyrir liggur að félög eru mjög misjafnlega skuldsett var líka lagt til að tillit verði tekið til skuldsetningar félaga á þeim tíma sem kalla má aðlögunartíma. Þetta rataði sem betur fer inn í lögin við vinnslu nefndarinnar á síðasta kjörtímabili.

Heildartekjur af veiðum og vinnslu samkvæmt skattframtölum félaga mynda þennan stofn, þ.e. gjaldstofn 1, eins og við ræddum um síðast, en tekjur af leigu og öðru af sölu aflaheimilda mynduðu stofninn. Söluhagnaður eigna og tekjur sem ekki tengjast veiðum og vinnslu, svo sem húsaleigutekjur, yrðu utan skattstofnsins til að koma í veg fyrir að veiðigjald af tekjum yrði innheimt tvisvar. Þegar afli er seldur til vinnslu eða gjaldtöku af hráefni sem veitt er utan íslensku landhelginnar af erlendum skipum er lagt til að skattstofn vinnslufyrirtækja lækki um kaupverð hráefnis til vinnslunnar. Þessi gjaldstofn mætti vera lágur eða um 1%.

Í gjaldstofni 2 er lagt til að rekstrarhagnaður félaga fyrir fjármagnskostnað myndi stofn til veiðigjalds. Stofn þessi mundi þá taka breytingum frá einu ári til annars vegna sveiflu í afkomu greinarinnar og er það í samræmi við þann vilja að skattleggja afkomu með einhverjum hætti. Gjaldstofn þessi væri þá af heildartekjum af veiðum og vinnslu að frádregnum almennum rekstrarkostnaði og skattalegum afskriftum. Með þessu er tekið tillit til fjárfestingarfélaga, þ.e. félög sem hafa til dæmis fjárfest í skipum og tækjum geta dregið þann kostnað frá við útreikning á skattstofni. Með því að hafa skattalegar afskriftir inni í útreikningum er girt fyrir að hægt sé að hafa áhrif á skattstofn með því að leigja til sín framleiðslutæki í stað þess að eiga þau. Þetta var sett fram vegna umræðu þar var um.

Virðulegi forseti. Ég hef stuttan tíma eftir í ræðu minni en ég var með hugmyndir og hef sett þær fram um svokallaðan gjaldstofn 3 sem væri í raun og veru staðgreiðsluveiðigjald. Aðalkosturinn við það er, eins og ég sagði síðast, að það yrði byggt á samtímagögnum, það yrði ekki byggt á tveggja ára gömlum gögnum og ekki gert þannig eftir á. Þetta yrði gert í rauninni frá degi til dags miðað við landaðan afla og yrði þá sett þannig fram að fyrirtækin mundu áætla veiðigjald sitt í rauninni, eins og gert er bara með skatta annarra, og svo í lok skattaárs færi fram uppgjör og annaðhvort eiga menn þá inni eða skulda. Þetta er einfalt kerfi, mjög einfalt, og yrði bætt við núverandi skil fyrirtækja til ríkisskattstjóra sama hvort það er gert ársfjórðungslega eða annan hvern mánuð.

Virðulegi forseti. Í fimm mínútna ræðu er kannski ekki hægt að fara í gegnum þetta allt saman en ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður, höfuðókosturinn við núverandi veiðigjöld og álagningu þeirra er hvað byggt er á gömlum gögnum. Þess vegna þarf að færa það til nútímans, færa það til þess þegar landað er afla og svo og svo mikið fæst fyrir hann. Þá er greitt af því kannski tveimur, þremur mánuðum seinna. Verði verðfall á mörkuðum kemur (Forseti hringir.) einfaldlega minna til að leggja á og þar af leiðandi minna gjald. Aðalatriðið er það sem samkomulag varð hér um á Alþingi milli flokka að leggja bæri á (Forseti hringir.) hóflegt veiðileyfagjald og þá er spurningin, hvað er hóflegt? En það verður spurningin endalausa.