142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóð svör. Ég skil það reyndar þannig að þær 20 millj. kr. sem voru viðbótarframlag í ár hafi eingöngu átt að nýtast vegna geðheilbrigðismála barna og unglinga en síðan hafi verið ráðinn geðlæknir til að þjónusta fullorðna. Ég efast ekki um að það veitir ekki af því, en peningarnir hafa sem sagt ekki nýst í það sem þeir voru eyrnamerktir í.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Við erum öll sammála aldrei þessu vant og viljum leita lausna. Ef við getum með einhverjum hætti aðstoðað hæstv. ráðherra stendur ekki á því.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að geðheilbrigðismálum barna og unglinga verði komið í ásættanlegt horf sem fyrst, hvort sem er í Norðausturkjördæmi eða á öllu landinu.