142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

málefni ferðaþjónustu.

[11:20]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mér er það bæði ljúft og skylt að heita hv. þingmanni því að upplýsa þingheim á öllum stigum þessa máls um framvindu þess og ég vonast eftir góðu samstarfi og jafnvel þátttöku þingsins í þeirri stefnumótun sem er að fara af stað.

Aðeins vegna þess að mér fannst hv. þingmaður blanda saman tveimur hlutum. Varðandi skattalækkun eða afnám 14% skattsins og lækkun niður í 7% aftur á gistingu þá hefur það ekkert með þetta mál að gera. Það er aðgerð sem ríkisstjórnin er að fara í vegna þess að sú skattahækkun fyrri ríkisstjórnar var óvönduð, var í andstöðu við þá sem í greininni vinna og var skaðleg fyrir greinina og flækti skattkerfið — við sjáum það á ummælum meðal annars frá ríkisskattstjóra í morgun að hann fagnar þessu — og þetta hefur mikið óhagræði í för með sér. Þeir peningar hefðu ekki farið í fjölsótta ferðamannastaði. Þar vil ég hins vegar hrósa hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) fyrir sjóð sem komið var á laggirnar (Forseti hringir.) á síðasta kjörtímabili en ég vil líka nefna það að (Forseti hringir.) ekki hefur enn þá tekist að klára þá fjármuni (Forseti hringir.) sem í þann sjóð voru settir svo það sé sagt hér. Afsakið.