142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar.

[11:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Herra forseti. Ókei, ég skil hvað forseti er að segja. [Hlátur í þingsal.] Ég taldi rétt að athuga árvekni hæstv. forseta.

(Forseti (EKG): Ég bið hæstv. forsætisráðherra að íslenska þetta ávarpsorð hér í upphafi.)

Ég fagna því að hæstv. forseti stóðst árvekniprófið sem ég taldi rétt að leggja fyrir hann eftir að hann missti af því þegar ég missti út úr mér nokkur orð á erlendri tungu en mér þótti það viðeigandi í svari til hv. þm. Helga Hjörvars.

Til að svara hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni þá er það rétt sem hv. þingmaður nefndi, að margt í þeirri fjárfestingaráætlun sem hv. þingmaður spurði um er ágætt og margt af því raunar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki allt jafn gott í fjárfestingaráætluninni, ekki allt jafn skynsamlegt og ljóst er að það mun þurfa að endurskoða þá áætlun eins og aðrar. Það hefur reyndar legið fyrir frá því að áætlunin var rædd í þinginu á sínum tíma að þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn og voru á sínum tíma í stjórnarandstöðu voru ekki á eitt sáttir við þær tillögur eins og þær voru kynntar þá.

Gerðar voru á þeim lítils háttar breytingar en það mun þurfa að endurskoða þetta eitthvað meira en þó sérstaklega með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs eins og hún blasir nú við, eins og hún mun þróast að óbreyttu, vegna þess að sú framtíðaráætlun um stöðu ríkissjóðs sem fjárfestingaráætlunin byggði á stenst engan veginn. Tekjur verða minni að óbreyttu en gert var ráð fyrir. Útgjöld verða umtalsvert meiri þegar menn taka með í reikninginn þau áform sem fyrrverandi ríkisstjórn samþykkti áður en hún lét af störfum, svo ekki sé minnst á ýmsar væntingar sem gefnar voru, meðal annars í umræddri fjárfestingaráætlun. Því er óhjákvæmilegt að endurskoða þessa áætlun eins og önnur áform um ríkisútgjöld.