142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil túlka það þannig að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafi verið að leita eftir því hvaða skoðun ég hefði á þessu. (Gripið fram í.) Ég er ekki heimskari en svo að ég áttaði mig á því.

Þegar þetta mál kom inn og var rætt í þingflokki mínum voru fyrstu viðbrögð mín þau að þetta mundi kannski ekki breyta miklu í raun. Ég hef upplifað það þannig að þessum málum hafi raunverulega verið ýtt áfram eins hratt og mögulegt var.

Tilgangur þessa frumvarps er sá að treysta lagagrundvöll þess að menn ýti málum hraðar áfram. Þó hefur það alltaf verið þannig í dómskerfinu að þau mál sem brýnt er að leysa hafa málsaðilar í samráði við dómara reynt að koma á aðalmeðferð eins fljótt og unnt er án þess að menn hafi litið svo á að þeir væru að fara fram fyrir í einhverri röð eða slíkt, þannig er gangurinn einfaldlega. Litið er til þess hvað málsaðilar eru lengi að afla þeirra gagna sem til þarf og reynt að haska því eins og mögulegt er þannig að hægt sé að koma máli í aðalmeðferð. Í raun er þetta alltaf svolítið undir málsaðilunum komið, en að vísu þarf styrka stjórn dómarans til þess að málsaðilarnir dragi ekki lappirnar að óþörfu.

Flýtimeðferð eins og laganefnd Lögmannafélagsins hefur nú mælst til eða haft í sínu áliti gerir ráð fyrir mjög skömmum tíma. Ég er ekki viss um að mörg þessara mála séu þannig vaxin að hægt sé að hafa svo stutta fresti í þeim. Hins vegar hefur það náttúrlega gerst líka í málum sem heita flýtimeðferðarmál að þau taki of langan tíma og fari fram úr þeim tíma sem ætlast er til að slík mál taki. Það er því talsverð lausung í þessu. Dómstólarnir og málsaðilar telja sig hafa haft talsvert svigrúm og hafi metið hvert mál fyrir sig.

Ég held að það hefði hins vegar verið sniðugra og markmiðunum kannski betur náð með því að stytta einfaldlega áfrýjunarfrestinn, fara nær því sem er í kærufrestum í málum af þessu tagi, og alla fresti í málsmeðferðinni, en það er mjög erfitt að setja lög um það nákvæmlega.

Tilganginn með þessu frumvarpi hef ég skilið svo að það sé verið að treysta lagagrunninn til þess að flýta þessum málum. Ég veit að þeim hefur í raun verið flýtt nema eitthvað sérstakt hafi komið til og menn þurft frekari fresti.