142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á fundi atvinnuveganefndar í morgun fengum við bókun frá fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni, og ég tel Samfylkingarinnar einnig, þar sem það var gagnrýnt að nefndin kallaði umræddan aðila, forsvarsmann þeirrar skoðanakönnunar sem er í gangi, á fund nefndarinnar og meðal annars orðað þannig í þeirri ályktun að það væri vegið að mannorði manna.

Ég vil greina frá þessu hérna af því tilefni sem gefst út af umræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um þetta sama mál. Þessari áskorun er beint til Alþingis og alþingismanna. Það kom beiðni frá nefndarmanni atvinnuveganefndar um að kalla þennan fulltrúa á fund nefndarinnar. (SSv: Þetta er rangt.) Ég er að gera grein fyrir því sem gerðist á nefndarfundi og gagnvart nefndinni. (Forseti hringir.) Það var kallað eftir því að þessi aðili yrði fenginn á fund og ég tel bara fullkomlega eðlilegt að þegar verið er að beina svona undirskrift til okkar alþingismanna (Forseti hringir.) og textinn er þannig verðum við við því að heyra röksemdafærslu þeirra sem að slíku standa. Hið sama á auðvitað við um ráðherra í þessu tilfelli, þeir eru líka alþingismenn.