142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

tekjuöflun fyrir skattalækkunum.

[15:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir fyrirspurnina, það er ánægjulegt að sjá hann hér aftur á þingi, ég var næstum því farin að sakna hans.

Hvað varðar tekjuöflun ríkissjóðs þá voru samþykkt lög á Alþingi sem allir stjórnmálaflokkar stóðu að, held ég, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Markmið laganna var tvíþætt, að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins og að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækjanna.

Af einhverri ástæðu var ekki lagt til í þeim lögum, af fyrrum stjórnarflokkum, að leggja þennan skatt á þau fjármálafyrirtæki sem raunverulega ollu hruninu og þess vegna voru þau þar undanskilin.

Í pistlinum sem vitnað er í bendi ég einmitt á þennan möguleika og stend raunar við það sem ég segi þar. Ég hef því miður ekki lesið nákvæmlega það viðtal sem hv. þingmaður vísar til, en það litla sem ég hef lesið af samtölum um þetta, hvort það var hjá Viðskiptablaðinu eða Fréttablaðinu, við hæstv. fjármálaráðherra gat ég ekki séð að hann útilokaði þetta. Hann sagði einfaldlega að þetta væri eitt af því sem yrði skoðað þegar kæmi að tekjuöflun hjá ríkissjóði. Ég held að ég og hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um mikilvægi þess að standa vörð um velferðina og heimilin í landinu, og ég tel að þetta sé eina leiðin til þess.