142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt því frumvarpi til laga sem við ræðum stendur, með leyfi herra forseta:

„Fyrir stjórnarkjör á aðalfundi skal Alþingi tilnefna, með hlutbundinni kosningu, sjö menn og jafnmarga til vara sem kosnir skulu í stjórn félagsins.“

Það stendur ekkert um að þetta sé með flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins. Ég reikna ekki með að Samfylkingin og Vinstri grænir og fleiri góðir flokkar á Alþingi fari að kjósa menn í stjórn RÚV sem eru með flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins. Ég geri ráð fyrir að þeir kjósi sína menn og þeir menn hafi döngun í sér til að segja frá því sem gerist hjá RÚV. Þetta hefur ekkert að gera með flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins. Ég mótmæli því. Það getur vel verið að Sjálfstæðisflokkurinn kjósi fólk sem er með flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins fyrir sína parta, það getur vel verið að hann sleppi því líka. Hann hefur gert það og valið hæft og gott fólk í stjórn RÚV. (Gripið fram í.) Það skyldi nú ekki vera að aðrir flokkar veldu sína menn inn í stjórn sem er með flokksskírteini viðkomandi flokks. En ég mótmæli því að Samfylkingin og Vinstri grænir þurfi að fara að kjósa fólk með flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins inn í stjórn RÚV.