142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:23]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Með óyggjandi hætti hefur verið sýnt fram á vilja og getu helstu stórvelda þessa heims til að kafa djúpt inn í einkalíf þegna sinna og þegna annarra landa. Á síðustu árum hefur hinn alþjóðlegi njósnaiðnaður stórveldanna tvíeflst með netvæðingu samfélaga þar sem hver og einn þegn skilur nú æ dýpri spor eftir sig í mörkum Síberíu. Tækni sem margir vonuðu að mundi frelsa fólk og leggja heiminn að fótum okkar hefur á sér skuggahlið sem vex ásmegin en er sem slík engin nýlunda.

Þær siðferðislegu spurningar sem vakna í mínum huga eru þrjár. Einkalíf og frelsi þess fjarlægist stöðugt raunverulegar aðstæður. Dulkóðun eða önnur vernd gagna einstaklinga er í raun til þess fallin að grafa frekar undan samfélagslegum möguleikum upplýsingatækni. Þegar öllu er á botninn hvolft þá nærast heilbrigð samfélög á trausti og frekari einstaklingsvæðing, með því að gera hvern og einn ábyrgan fyrir vernd eigin gagna, eflir aðeins grundvöll og tilvistarréttlætingu njósnaiðnaðarins.

Meiri áhyggjur hef ég þó af þeirri sjálfsmynd sem við sköpum okkur sem vígamenn á velli upplýsingatækni. Okkur verður umhugað um hvernig við birtumst á netinu og hvaða mynd er mögulega hægt að teikna upp af okkur þar. Við hættum að vera hér og förum að sýnast þar og aftur grefur það enn frekar undan undirstöðum heilbrigðs samfélags, trausts okkar á millum og endar með því að næra njósnaiðnaðinn enn frekar. Grundvöllur samfélagsins birtist í umhyggju okkar fyrir öðrum, á tímum internetsins þarf sú umhyggja að birtast í gagnsæi upplýsingaöflunar. Öflug persónuupplýsing á netinu í hvaða tilgangi sem er þarf þá að vera gagnsæ, það þarf að koma fram til hvers þeirra gagna er aflað, hvort þú eigir möguleika á þátttöku og nýtingu og úrvinnslu gagnanna og hvaða mynd verður til svo að þú eigir möguleika á að bregðast við henni.

Hér þurfa stjórnvöld að ganga fram fyrir skjöldu og krefja alþjóðasamfélagið um að virkja þessa ábyrgð.