142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af stöðu heimilanna, en það er áherslumunur í nálgun Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar til dæmis til þessara mála. Framsóknarflokkurinn gerir mikið úr forsendubresti og að það þurfi að leiðrétta hann. Okkur er meira umhugað um það í Bjartri framtíð að ræða hverjar forsendurnar eru í íslensku efnahagslífi: Hverjar eru forsendur heimilanna? Við erum með miklu hærra vaxtastig en Evrópulöndin, við erum með miklu hærri verðbólgu, við erum með hærra verðlag og við erum með lægri laun. Það eru forsendurnar. Þær þarf að laga og það þarf að skora þessar kringumstæður á hólm. Við mundum telja að það væri langbesta kjarabótin fyrir heimilin ef við mundum ná efnahagslegum stöðugleika á Íslandi með lægri verðbólgu og lægri vöxtum og að við gætum einhvern veginn skapað þannig aðbúnað fyrir íslenskt efnahagslíf að við gætum bætt kjör og lækkað verðlag.

Að mínu viti er það umdeilanlegt hvort einhverjar forsendur hafi í raun brostið vegna þess að við búum til dæmis við það að við höfum krónu sem ekki er gjaldgeng í alþjóðlegum viðskiptum og hún hefur valdið verðbólguskotum trekk í trekk. Lántakendur ættu því kannski að vera orðnir svolítið vanir því á Íslandi að forsendurnar séu þær að verðbólguskot verður með tilheyrandi hækkunum á höfuðstól.

Ef ég og við í Bjartri framtíð ættum að setja fram aðgerðaáætlun, og kannski munum við gera það á haustþinginu, hefði ég talið að sú áætlun ætti að snúast um það hvernig við náum niður verðbólgu, náum niður vöxtum, náum niður verðlagi og hækkum laun til þess að gera forsendurnar betri á Íslandi.