142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

ríkisfjármál.

[10:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrri ríkisstjórn beitti ekki flötum niðurskurði. Ekki kom til flatur niðurskurður á útgjöld í stjórnartíð vinstri flokkanna hér á landi. Velferðarkerfið tók á sig helmingi minni niðurskurð en stjórnsýsla og framkvæmdir, eins og fram hefur komið í fjárlögum síðustu fjögurra ára og hefur verið margsinnis til umræðu í þinginu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrir hálfum mánuði, OECD í gær — það tala allir gegn áformum ríkisstjórnarinnar. Allar umsagnir sem eru að berast til þingsins núna, t.d. varðandi þingsályktunartillögu um að stofna nefndir í ríkisstjórninni, eru gegn þeim áformum sem ríkisstjórnin er að boða; flatan niðurskurð á útgjöld ríkisins, 3,5 milljarðar í velferðarkerfið og sértækar aðgerðir upp á 25–28 milljarða eingöngu til að mæta þeim útgjöldum sem núverandi ríkisstjórn hefur stofnað til og þeim tekjusamdrætti sem liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þá er ekki verið að tala um neitt annað en hennar eigin ákvarðanir.