142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[15:23]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Öll umræða um veiðileyfagjaldið svokallaða er flókin. Málið í heild sinni er einmitt það, flókið og margslungið. Hinir ýmsu þættir þess og mörgu hliðar eru ýmist samverkandi, fara á skjön eða eru háðir þvers og kruss. Þarna kallast á hlutir sem sumir fara vel saman en aðrir ekki. Flókið lífríki sjávar, renta af þjóðarauðlind, hagkvæmni í rekstri, byggðir við strandir landsins, félagsleg skilyrði, hvernig fortíðin hefur verið og hvernig við viljum sjá framtíðina. Sitt sýnist hverjum og það er mjög skiljanlegt.

Af þeim 18 fundum atvinnuveganefndar sem ég hef setið þetta sumarþing er óhætt að segja að vel hafi verið farið yfir málin. Mér dettur þó ekki í hug að halda því fram að umræða okkar um það frumvarp sem nú liggur fyrir hafi verið tæmandi. Ef til vill nægjanleg fyrir aðra, en ekki mig. Það viðurkenni ég fúslega. Sá lærir sem lifir. Ég hlakka til að sitja í nefndinni næstu fjögur ár og gera einmitt það.

Á hinn bóginn hefur það líka verið ágætt að fá að koma að málum bláeygð og blaut á bak við eyrun leitandi eftir heildarmyndinni. Hver er hún? Erum við farin að týna henni? Ég held við þurfum að stíga skref til baka og horfa á meginmarkmiðin. Því fólk er tiltölulega sammála.

Við erum sammála um að þjóðin eigi að fá rentu af auðlind sinni. Það er sameining um að passa upp á lífríki sjávar, vernda og hlúa að sjálfbærninni. Við erum stolt af því að kunna að reka hagnýta fiskveiðistefnu og viljum halda því áfram. Útgerðin er sammála því að hún borgi fyrir afnot sín. Fólk er sammála um að passað sé upp á að auðlindin sé notuð á sem arðbærastan hátt fyrir þjóðina og að hugað sé að fjölbreytni í rekstri og nýliðun.

Meginspurningin sem við sitjum eftir með er þessi: Hvaða verð er ásættanlegt fyrir þessa auðlind? Hvað er sanngjarnt að útgerðin borgi?

Við höfum fengið svar frá tæplega 35 þúsund manns sem skrifað hafa undir áskorun til Alþingis. Ég held að ekki þurfi að fara í neinar hártoganir um hvað fólkið er að biðja um. Fyrir mér er það mjög skýrt. Því finnst að það frumvarp sem hér liggur fyrir bjóða of lágt verð til útgerðanna. Við þurfum ekkert að flækja það með því að amast yfir því að í áskoruninni felist gallar. Það er ekkert allra Íslendinga að vera inni í tæknilegum hliðum um lög um veiðigjöld. Það er okkar. Það er okkar að hlusta.

Stóra myndin er þessi, kæru stjórnarflokkar: Samfélagið er ekki sátt við þessa væntu breytingar ykkar. Við erum með henni að horfa á ýmist 9–13 milljarða áætlað tekjutap fyrir ríkissjóð. Það er þetta sem fólk er skíthrætt við. Við erum nú þegar á mörgum stöðum komin langt fram yfir öll mörk í niðurskurði. Það sem þið bjóðið upp á samhliða styrkir þessa hræðslu.

Ýmist hér í þingsal eða í fjölmiðlum hefur verið rætt um að stytta aftur fæðingarorlof, afturkalla fríar tannlækningar barna, minnka möguleika námsmanna hjá LÍN, eyða ekki í steypu eins og hæstv. heilbrigðisráðherra kallaði það þegar rætt var um málefni Landspítalans og um heilbrigðiskerfið. Kjarasamningar kvennastétta liggja fyrir. Öryrkjar, sem eru verst settir, sjá ekki fram á neinar breytingar til batnaðar. Svo mætti lengi telja.

Fólk er ekki til í þetta. Það spyr: Hvað á að koma í staðinn fyrir tekjur veiðileyfagjaldsins sem við erum að fara að semja frá okkur? Eru það skattalækkanir? Aukin umsvif með vísan í Laffer-áhrif? Ég tek þá umræðu betur seinna, frú forseti, en mér sýnist hagfræðilærdómurinn eitthvað vera að klikka hjá ríkisstjórninni.

Hagfræðin er félagsleg grein. Hún reynir að áætla og magnbinda hegðun og hvata fólks. Sú hegðun er mismunandi eftir samfélögum og félagsgerð. Ísland er allt annað samfélag en Bandaríkin. Við getum ekki sagt að það sem gæti gerst þar með skattalækkunum gerist eins hér. Við getum líkt okkur við Norðurlandaþjóðirnar. Athugið til dæmis skattana í Svíþjóð og Noregi og skoðið þar umsvif og framleiðni.

Frú forseti. Það er ekki bara almenningur sem setur sínar spurningar við þær breytingar sem ríkisstjórnin leggur hér fram, það hafa líka hagfræðingar og aðrir fræðimenn, sem komið hafa fyrir atvinnuveganefnd, gert, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór vel í gegnum hér áðan. Þeir hafa sýnt fram á, með greiningum sínum, að skynsamlegt væri fyrir hag þjóðarinnar, fyrir ríkiskassann, að hækka líka gjald fyrir bolfiskinn.

Við sem stöndum að þessu minnihlutaáliti í atvinnuveganefnd gerum okkur grein fyrir að mörg þeirra fyrirtækja sem sækja bolfiskinn standa illa. Það eru þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki. Þau eru mikið skuldsett, en þau fá líka skuldaafsláttinn.

Í breytingartillögu sem við hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir og Björn Valur Gíslason leggjum hér fram leggjum við, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur farið í gegnum, til að hækka frítekjumarkið umtalsvert sem vænkar hag þessara litlu og meðalstóru útgerða á móti. Það skilar sér líka til baka í ríkissjóð.

Herra forseti. Ég er stolt af því að geta í erfiðu máli lagt fram málamiðlun sem fræðimenn, almenningur og útgerðin geta verið sátt við. Ég skrifaði undir nefndarálit minni hlutans með fyrirvara einfaldlega út af því að við fengum mjög stuttan tíma til að skrifa það álit. Þar eru inni flóknir útreikningar sem aðrir sem hafa setið lengur á Alþingi eru betur inni í en ég. Það sem maður vill gera hér á Alþingi, maður þarf að vera viss með það allt.

Ég er sátt með þær breytingartillögur sem við færum hér fram. Ég vonast til þess að okkar kæru stjórnarflokkar lesi þá tillögu, lesi hana vel og sjái sér fært að standa með okkur að nálgun í fiskveiðistjórn sem er í sátt við fólkið í landinu, útgerð og hagræna afkomu þjóðarbúsins.