142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Nú síðar í dag mun ég funda með fulltrúum námsmannahreyfinganna til að ræða þær athugasemdir sem hafa komið fram í kjölfar þeirrar ákvörðunar sem var tekin á fundi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Ég tel rétt að ítreka í upphafi máls míns að með því að taka upp kröfuna um 75% námsframvindu er í raun og veru verið að taka upp sömu kröfu og var hér fyrir örfáum árum síðan. Öll þau mál og allar þær athugasemdir sem er verið að benda á hér og hefur verið bent á í umræðunni voru að sjálfsögðu líka til staðar þá.

Ég vil einnig benda á að almenna krafan á Norðurlöndum varðandi námsframvindu er 75%. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það verða uppi ýmsar aðstæður í þessu kerfi hjá okkur sem nauðsynlegt getur verið að bregðast við, sérstaklega t.d. eins og var bent á í fyrirspurninni sem snýr m.a. að fötluðum, foreldrum langveikra barna og einstæðum foreldrum. Það eru allt atriði sem ég mun alveg örugglega ræða við talsmenn stúdenta í dag. Ég bendi á að nú þegar eru úrræði inni í reglum lánasjóðsins sem snúa að þeim hópum og það er sjálfsagt mál og nauðsynlegt að fara nákvæmlega yfir það, m.a. á þessum fundi í dag, hvort þar séu atriði sem hægt er að bregðast við sérstaklega og er nauðsynlegt að taka til skoðunar.

En ég ítreka þetta: Verið er að taka upp sama kerfi og var hér fyrir örfáum árum síðan, sama fyrirkomulag og er á Norðurlöndunum. Ég bendi líka á, og það hefur svolítið gleymst í þessari umræðu, að um leið og verið er að gera þetta er verið að ganga frá því og leggja það til að námslánin hækki um 3%, sem er mjög mikilvægt til að halda nokkurn veginn í við aukna verðbólgu. Samantekið er í sjálfu sér í engu verið að slá af kröfu um félagslega aðstoð í námslánakerfinu og það er alveg sjálfsagt mál og nauðsynlegt að bregðast við öllum þeim athugasemdum sem koma upp um þá hópa sem hv. fyrirspyrjandi nefndi í fyrirspurn sinni.