142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

[15:26]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hún er mjög viðeigandi nú á tímum þar sem þessi mál eru mikið til umræðu og við horfum upp á stöðuga aukningu ferðamanna.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að ýmislegt vantar í að fylgja eftir þeirri ferðamálaáætlun sem unnið er eftir. Ég get fullvissað hv. þingmann um það að gott samstarf er á milli þeirra aðila sem bera ábyrgð á einstökum þáttum þess svo sem Ferðamálastofu og Íslandsstofu sem heldur utan um mikið af markaðssetningarmálum og sérstöku átaki þar sem snertir sérstaklega að dreifa ferðamannastraumnum allt árið.

Frumvarp um ný ferðamálalög dagaði uppi á síðasta þingi. Verið er að vinna að undirbúningi nýs frumvarps sem ég mun væntanlega leggja fram í haust á nýju þingi. Þar sem sú frumvarpssmíð er að fara af stað mun verða farið vel yfir þau atriði sem hv. þingmaður nefndi.

Varðandi tekjurnar og úthlutunina úr sjóðnum varðandi fjölsóttu ferðamannastaðina vil ég aðeins nefna í lokin að það er rétt sem hv. þingmaður segir að úthlutað hefur verið úr honum. Það sem er merkilegt við það er að til ráðstöfunar voru í kringum 500 milljónir, en þær hafa ekki allar verið sóttar, ef svo mætti að orði komast. Styrkjunum hefur verið ráðstafað eftir þeim fjárheimildum sem þar um ræðir, en síðan hafa þeir ekki verið sóttir. Það kemur kannski að því sem hv. þingmaður nefndi líka að undirbúningstíminn er lengri. Það þarf því að skoða (Forseti hringir.) hvernig hægt er best að nýta þær fjárveitingar sem eru til staðar til að byggja upp þessa staði.