142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:05]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sem betur fer þannig, og ég vil enn og aftur vekja athygli á því, að þjóð okkar á geysilega framtíðarmöguleika vegna matarauðlinda sinna. Það eru auðlindir sem hækka í verði samkvæmt áliti alþjóðastofnana. Það er ekki bara sjávarútvegsauðlindin, það er líka grasið okkar, lambakjötið, smjörið eða hvað svo sem það er. Það eru stóru tækifæri Íslands. Þetta er það sem mun í framtíðinni standa undir því að við getum sótt enn betri lífskjör hér en áður, sem betur fer.

Ég vil að sama skapi að við tökum mjög alvarlega, og ég rakti það í ræðu minni, fyrirtæki sem hafa fengið þær greiningar á rekstri sínum að betra sé fyrir þau að loka en halda áfram veiðum, binda skipin. Þær útgerðir eru ekki að skapa verðmæti og tekjur til þess að standa undir velferðarsamfélaginu sem við viljum byggja. Það skulum við alveg taka alvarlega.

Enn og aftur vil ég ræða um þetta sem stóru tækifærin okkar og ítreka það sem hefur endurtekið komið fram í umræðum allra þeirra sem taka þátt í umræðunni um þetta frumvarp, að ekki er mjög langt á milli okkar í að skapa samstöðu um það hvernig við eigum að haga skattheimtu, hvernig við eigum að sækja til samfélagsins þá fjármuni sem við viljum taka út úr þessari atvinnugrein. Við verðum að gera það með sjálfbærum hætti. Það er þungavigtarpunkturinn.