142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðu hennar og umfjöllun um þetta mál og ekki síst áhrifamikinn kafla undir lok ræðunnar þar sem hún fjallaði um réttlætið, jafnréttið og hvernig menn legðu sitt af mörkum til samfélagsins. Ég þakka henni fyrir það. Ég held að það sé þörf ádrepa sem kom fram hjá hv. þingmanni.

Þingmaðurinn ræddi líka í lokin um hugsanlega aðkomu þjóðarinnar að afdrifum þessa máls og það hefur komið fram í ræðum fleiri hv. þingmanna í umræðunni í dag.

Nú er það svo að það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október síðastliðinn þar sem leitað var álits þjóðarinnar á ýmsum álitamálum, sérstaklega er varða stjórnarskrána og þar var meðal annars fjallað um auðlindir í þjóðareigu þar sem um 80% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni lýstu sig fylgjandi því að auðlindir, þar með talið fiskstofnarnir, væru lýstar þjóðareign í stjórnarskrá.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er hvernig hún sér samhengið á milli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um það efni og svo frumvarpsins sem er til umfjöllunar. Lítur hv. þingmaður svo á að í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu hafi í raun verið tekin afstaða til þeirra grundvallaratriða sem eru undir í því máli sem við erum að ræða í dag og þá er ég ekki að tala um einstakar útfærslur á því hvort veiðigjaldið á að vera 10 kr., 20 kr. eða 30 kr. á þorskígildiskíló eða eitthvað slíkt heldur þá grundvallarþætti sem við erum að fjalla um í frumvarpinu? Ég vil gjarnan heyra viðhorf hv. þm. Birgittu Jónsdóttur til þess, hvort hún líti svo á að í raun sé búið að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um þau álitaefni sem eru undir hér.