142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er sérstaklega kaldhæðnislegt að vera að ræða þessar breytingar í kjölfar umræðunnar sem átti sér stað fyrr í dag. Mig langar í stuttu máli að útskýra afstöðu Pírata. Við munum greiða atkvæði með breytingartillögu á þskj. 53 sem fjallar um að gefa starfsmönnum Ríkisútvarpsins áheyrnarfulltrúa í stjórn þess. Við teljum það mikilvægt gagnsæismál og þó til bóta í þessu vonda máli.

Við munum sitja hjá í atkvæðagreiðslu um breytingartillögu á þskj. 58 og 54 sem varðar það að í stað sjö stjórnarmanna séu níu stjórnarmenn. Ástæðan er sú að við sjáum ekki að það breyti einu eða neinu, hvorki um aðgerðirnar né um það hvernig stjórnarháttum Ríkisútvarpsins sé komið. Síðan munum við að sjálfsögðu greiða atkvæði á móti frumvarpinu sjálfu.