142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[16:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp eins og fram hefur komið í umræðum. Þetta er efnislega að stórum hluta til sambærilegt við frumvarp sem ég flutti sem efnahags- og viðskiptaráðherra en stjórnarandstaðan lagðist þá gegn.

Ég fagna sinnaskiptunum og fagna þverpólitískum vilja til að styrkja stöðu Seðlabankans í hinni erfiðu glímu við að undirbúa áframhaldandi aðgerðir á sviði afnáms gjaldeyrishafta. Ég vísa sérstaklega til ákvæða í nefndaráliti þar sem tekið er af skarið um að starf heldur áfram við að endurskoða fjármálalöggjöfina í heild sinni og undirbúa löggjöf um fjármálastöðugleika og tilkomu fjármálastöðugleikaráðs. Það er einn af þeim fyrirvörum sem ég set við stuðning við þetta mál að sú vinna haldi áfram og við fáum slík frumvörp inn á okkar borð hér á haustdögum.

Einnig legg ég áherslu á að þverpólitísk nefnd, samstarfsvettvangur allra stjórnmálaflokka um þetta mikilvæga verkefni haldi áfram störfum. Enginn hefur hreyft andmælum við því að svo verði þannig að það er einnig annar fyrirvari af minni hálfu að þetta er gert í trausti þess að samstarf stjórnmálaflokkanna á þessu sviði haldi áfram.