142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki má skilja orð mín sem svo að ég væri meira fylgjandi málinu ef ákvæðið væri sett til lengri tíma. Ástæða þess að ég nefni að verið sé að setja einskiptisákvæði til bráðabirgða í þingsköpin er sú að mér finnst almennt vandræðalegt og klúðurslegt að breyta þingsköpum með þeim hætti. Hins vegar mundi mér finnast það jafnvel verra ef við ætluðum að fara að afgreiða langtímabreytingu á þingsköpunum án þess að nokkur umræða hefði farið fram og nokkur ígrundun. Ég er að sjálfsögðu ekki hlynnt því.

Ég hef verið fylgjandi þeim breytingum sem gerðar voru þegar þingsetningardagur var færður framar í september og finnst mun eðlilegra að þingið færist nær taktinum í samfélaginu með því að stytta sumarhlé og vera hér til að mynda í september á sama tíma og allt samfélagið er á fullri ferð og mjög einkennilegt að þingið sé í hléi. (ÖS: Þá eru göngur.) Ég er því mjög fylgjandi þeim breytingum sem gerðar voru að flytja þingsetningardaginn framar þrátt fyrir göngur og réttir. Sú er mín afstaða. Ég er ekki hlynnt þessari breytingu hvorki til eins skiptis né fleiri skipta.