142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera öryggi við raforkudreifingu og kostnað við raforkudreifingu að umtalsefni. Á síðustu vikum hafa verið í fjölmiðlum fréttir af vinnu nefndar um útflutning raforku í gegnum sæstreng, enda skilaði ráðgjafarnefnd um lagningu sæstrengs til Evrópu lokaskýrslu til iðnaðar- og viðskiptaráðherra þann 26. júní.

Á sama tíma eru svæði víða um land sem búa við mjög takmarkað öryggi í raforkudreifingu. Nægir að nefna norðausturhornið og Vestfirði þar sem eru endastöðvar í dreifikerfinu auk þess sem veikir punktar eru víðar. Sem dæmi um þetta má nefna að 24. febrúar síðastliðinn olli breyting á álagi á byggðalínu Landsnets á Suðvesturlandi yfirlestun á línunni sem síðan leiddi til rafmagnsleysis á nánast öllu Norðausturlandi um tíma eða Norður- og Austurlandi. Þessi breyting á álagi var vegna truflunar hjá álverinu í Straumsvík og takið eftir, hún olli rafmagnsleysi á öllu Norðausturlandi.

Í tilkynningu frá Landsneti kom fram að byggðalínan væri komin að þolmörkum og rafmagnsflutningar um hana því mjög takmörkunum háðir. Þessi eina rafmagnstruflun olli verulegu tjóni á búnaði einstaklinga og fyrirtækja á Norður- og Austurlandi auk ómælds kostnaðar við endurræsingu og yfirferð kerfa. Þessar takmarkanir á flutningsgetu og öryggi hafa veruleg áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni og koma niður á atvinnuuppbyggingu þar. Á sama tíma er dreifbýlið að greiða margfalt fyrir flutning raforku.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé mun brýnna að tryggja öruggari afhendingu rafmagns um land allt en að vinna að útflutningi raforku. Ég vil hvetja þingmenn til að finna leiðir til að fara í markvissa vinnu til að tryggja raforkudreifingu um land allt ásamt því að skoða verð til neytenda á dreifingu raforku.