142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í grunninn eru hinar fyrirhuguðu breytingar á úthlutunarreglum lánasjóðsins tilkomnar til að mæta niðurskurðarkröfu ríkisstjórnarinnar á einstök ráðuneyti, og væntanlega fær menntamálaráðuneytið á sig kröfu um að skera niður um 1,5% flatt eins og fram hefur komið.

Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óskiljanlegt og sýnir að það er allt annað en menntun sem er í forgrunni hjá núverandi ríkisstjórn. Við höfum orðið vör við það hér á sumarþingi að að minnsta kosti einstakir aðrir ráðherrar eru að lýsa yfir alls konar útgjöldum og hæstv. menntamálaráðherra virðist bara þurfa að lúffa fyrir kvótakóngum.

Í öðru lagi, þegar ákveðið er að skera niður hjá sjóðnum, að taka ákvörðun um hvernig sá niðurskurður skuli koma til — ég velti fyrir mér hvort hugsað hafi verið um aðrar leiðir en að fara í að auka námsframvindukröfurnar sem leiðir til þess að tiltekinn hluti námsmanna, jafnvel 10–15%, missir alfarið rétt til námslána.

Hér hefur verið farið yfir námsframvindukröfuna, 22 einingar í stað 18. Þetta er að mínu viti algjörlega galin krafa, einkum vegna uppbyggingar náms í háskólanum. Þar hefur sérstaklega verið bent á stóra kúrsa upp á 10 einingar hvern en hæstv. ráðherra hefur nú þegar sagt að það verði tekið til sérstakrar skoðunar. Sömuleiðis hefur hann sagt að þessu verði beitt með þeim hætti að þeir sem skila 75% á heilu námsári eða meira þurfi ekki að verða sviptir námsláni í heila önn eins og ráðgert var. Þetta er vissulega til bóta.

Ég vil segja líka að samanburður við Norðurlöndin er algjörlega galinn. Það geta ekki og eiga ekki að vera sömu forsendur fyrir fjármunum sem menn fá í styrki annars vegar og fjármunum sem menn fá lánaða. Það er mýta í þessu öllu saman að hluti námslána á Íslandi sé styrkur. Slíkur styrkur er einungis til þeirra sem eru með hæst lán og fara seint á vinnumarkaðinn en miðgildisnemandinn fær lítinn sem engan styrk.

Við sjáum í þessu öllu þegar öllu er á botninn hvolft að þetta (Forseti hringir.) snýst fyrst og fremst um það að ráðherrann treystir sér ekki til að standa vörð um LÍN og menntakerfið á meðan teknar eru af tekjulindir eins og (Forseti hringir.) veiðigjöld og auðlindaskattur. (Forseti hringir.) Við sjáum í hverju sending ríkisstjórnarinnar til námsmanna felst.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja þingmenn að gæta tímamarka í ræðum sínum.)