142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:21]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ég fagna því eðlilega að verið sé að skoða þetta mál og það hvernig hægt er að koma til móts við þann vanda sem upp hefur komið í umræðunni og komið í ljós að er fyrir hendi, t.d. vegna uppbyggingar námsins innan háskólans, einingafjölda og annars, en líka vegna þeirra hópa sem þessi breyting mun bitna á. Ég vil samt sem áður segja og taka undir með hv. þm. Björt Ólafsdóttur að þær athugasemdir sem komu frá hæstv. menntamálaráðherra um að nemendur gætu alveg gert þetta svona því að þar með sinntu þeir námi sínu af fullri alvöru er háalvarlegt mál.

Nemendur sem geta ekki stundað nám sitt jafn hratt og normið gerir kröfu um gera það ekki endilega vegna þess að þeir geti það ekki eða vegna þess að þeir hafi ekki metnað til þess. Það er einfaldlega vegna þess að samfélagið okkar er þannig hannað að það gerir ekki ráð fyrir öllum. Og það er þannig hannað að það veitir ekki öllum sem þess þurfa viðeigandi aðstoð. Það gerir það að verkum að samanburður við Norðurlöndin í þessum efnum er að mínu mati óþolandi. Það er rosalega algengt hjá okkur að við berum okkur saman við Norðurlöndin þegar okkur hentar það en svo gerum við það ekki þegar okkur hentar það ekki.

Í mínu tilviki er það þannig að ég hefði einungis getað lokið háskólanámi á fullum hraða vegna þess að ég var með notendastýrða persónulega aðstoð allan sólarhringinn. Það er forsenda þess að ég geti lokið námi mínu. Ef ég hefði ekki verið með notendastýrða persónulega aðstoð hefði ég lokið námi einhvern tímann en ég hefði alveg verið jafn metnaðarfullur námsmaður engu að síður.

Ég vil eiginlega beina þeim tilmælum til hæstv. menntamálaráðherra að hann skoði það hvort ekki þurfi að biðjast afsökunar á þessum tilmælum.

Að lokum vil ég samt segja að ég fagna umræðunni sem ég vona að skili sér í því að þessar breytingar muni ekki leiða til þess að mismunun verði á grundvelli skerðinga og félagslegrar stöðu til háskólanáms á Íslandi.