142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér hefur vaskasti fjármálaráðherra síðustu áratuga tekið hv. þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins í dálitla kennslustund um hvernig á að koma saman fjárlögum og reyndar okkur öll hin. Ég hef litlu við það að bæta. Ég hef það hins vegar umfram hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að ég er miklu sáttfúsari en hann og eftir því sem ég hníg að aldri verð ég blíðlyndari og ég get sagt það við hv. þm. Brynjar Níelsson að ég þarf ekkert nema rök. Eins og hv. þingmenn vita, að minnsta kosti hin seinni árin, hefur alltaf verið hægt að koma tauti við mig ef menn nenna að tala við mig, ef menn nenna að gefa mér rök fyrir sinni afstöðu. (Gripið fram í.) Ég spurði í gær hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna þyrfti að fresta þingi með þessum hætti og framlagningu fjárlagafrumvarps og tekjuöflunarfrumvarpa. Ég færði ákveðin rök fyrir því af hverju ég teldi að þess þyrfti ekki. Það voru engin svör.

Nú sá ég áðan gægjast í gættina hæstv. forsætisráðherra sem á allan frumburðarrétt að þessu frumvarpi. Hann er sá sem formlega óskar eftir því gagnvart þinginu að fjárlagafrumvarpi verði frestað. Kannski gæti hann tyllt tám sínum niður örstutta stund í ræðustólinn og reynt að skýra það út fyrir mér sem ég hafði ekki greind til að skilja hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það þarf ekki annað en að skýra út af hverju þarf þessa frestun og þá er ég með.

Eins og þingmenn vita af fyrri ræðum mínum kom ég til þessa sumarþings til að greiða fyrir málum. Ég átti von til þess að geta hjálpað til dæmis hæstv. forsætisráðherra og ýmsum öðrum, meðal annars hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra eins og ég hef reynt, að koma fram ákveðnum frumvörpum.

Ég lýsti því yfir að ég kæmi hér meðal annars til að reyna þá að hafa vit fyrir ýmsum í mínum þingflokki sem voru ekki alveg jafn vinsamlegir eða leyfðu sér þann munað að minnsta kosti að vilja skoða þau frumvörp og þær hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn hafði fram að færa varðandi skuldaniðurfærslu með jafn jákvæðu viðmóti. Ég fékk hins vegar ekkert tækifæri til þess. Það komu engin frumvörp. Það kom bara þingsályktunartillaga að vinnuáætlun sem í reynd var hrein sýndarmennska vegna þess að hún þurfti ekkert stimpil þingsins til að forsætisráðherra gæti látið þá vinnu fara af stað. Reyndar get ég fyrir hans hönd glaðst yfir því að hæstv. fjármálaráðherra alla vega leyfir það af náð sinni og umburðarlyndi að tilteknar hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn háði kosningabaráttu sína á verði skoðaðar. Lengra komst Framsóknarflokkurinn því miður ekki.

Ég kom líka til þess að styðja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra í því að hjálpa henni að hrinda í framkvæmd þeim yfirlýsingum sem hún gaf. Hún komst hálfa leiðina, ég gleðst yfir því, greiddi atkvæði með því og gerði ekkert nema tala vel um það og studdi hana í baráttu hennar til að losa stífluna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins með því að benda á að hún kom ekki fram frumvarpi hér hálfa viku vegna þess að það var stopp hjá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra benti reyndar á ákveðnar tekjuöflunarleiðir sem ég tók undir og reifaði í kosningabaráttunni, en það er nú ekki efni minnar ræðu.

Herra forseti. Ég kom bara til þess að benda á að þegar hv. þm. Brynjar Níelsson, sem illu heilli er nú horfinn úr þingsal, segir að þetta sé í reynd ekkert nema hjóm eitt sem við erum að slást um er það ekki að öllu leyti rangt hjá hv. þingmanni. Það er rétt hjá honum því ég er viss um það að ég og stjórnarandstaðan öll, þingheimur allur, mun lifa gott haust jafnvel þó að fjárlagafrumvarpinu seinki um þrjár vikur. Það verður ekki héraðsbrestur í okkar liði en við þurfum eða ég að minnsta kosti þarf að fá rök fyrir frestuninni.

Hv. þm. Brynjar Níelsson gaf giska góð rök fyrir því í framsögu sinni fyrir áliti félaga hans í nefndinni sem um þetta fjallaði vegna þess að hann benti á að flaustrið og handarbakavinnubrögðin við að koma þessu frumvarpi fram á síðustu stundu, greinilega án nokkurs undirbúnings, var slíkt að lá við borð að hér yrði stórslys. Hv. þm. Brynjar Níelsson, sem hefur dálítið glæsta fortíð sem hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, benti á að frumvarpið eins og það var lagt fram braut í bága við stjórnarskrána. Þannig eru vinnubrögðin. Svo segir hv. þingmaður að við eigum bara að flýta okkur með málið og keyra það í gegn. Ja, ef það hefði ekki verið fyrir árvekni hans hefði stefnt í stórslys. Og þó að hv. þingmaður hafi afþakkað lof og prís vil ég nú segja við hv. þingmann að þegar hv. þm. Helgi Hjörvar lofar einhvern mann eiga menn að meðtaka það í þökk því að það gerist sjaldan.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tók síðan þá rökleiðslu sem hv. þm. Brynjar Níelsson kom með áðan einu skrefi lengra og benti á að ef þessi skavanki hefði farið í gegn hefðum við getað lent í því sem sá ágæti stjórnmálaleiðtogi sem enn er á dögum í Havana á Kúbu og reykir vindla gerði þegar hann frestaði jólunum. Þá hefði þingi hugsanlega af tæknilegum ástæðum verið frestað um aldur og eilífð. Það var það sem undir lá. Þess vegna var ég ekki sáttur við það fyrr í þessari umræðu þegar ég innti eftir því hvernig menn hefðu rannsakað þetta mál. Það kom í ljós að það hafði verið tæknilega vel rannsakað af því að það vill svo til, sem er bara hamingjan sem örlögin færa okkur, að hv. þingmaður með sína reynslu sat í nefndinni. En hann hefur enga reynslu af því að koma saman fjárlögum og þess vegna gat hann ekki upplýst nefndina um hvort það væri rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær að væru ástæður fyrir því að frumvarpið kom fram og ég ætla að fara í síðar í minni ræðu, en þannig þurfa menn að vinna.

Það dugar ekki bara að hafa af tilviljun sérfræðing í hátæknilegum efnum sem varða hina lagalegu gerð frumvarpa, menn þurfa líka að leita ráða hjá þeim sem hafa reynslu af framkvæmd málanna. Það var ekki gert. Auðvitað hefði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd átt að fá til sín starfsmenn fjármálaráðuneytisins til að spyrja út í fullyrðingar hæstv. fjármálaráðherra. Ein af þeim að minnsta kosti var tæknilegs og fjárlagagerðarlegs eðlis. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri illframkvæmanlegt að koma fram fjárlögum á réttum tíma. Ég gæti haldið langa ræðu um þetta alveg eins og sá maður sem nú rekur sitt fagra andlit í gættina, hæstv. heilbrigðisráðherra, sem var einmitt sá sem gekk fram fyrir skjöldu til að fá þingið til að fallast á að þingskapalögum yrði breytt þannig að tekjuöflunarfrumvörpin kæmu fram með fjárlagafrumvarpinu. Hann er upphafsmaður alls þessa og tók hann tvö þing að sannfæra mig um að það væri rétt. Ég er eins og Tómas, ég þarf að leggja höndina í sárið til að trúa. Ég trúði.

En hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon, svo hann sé nú ávarpaður fullu nafni, fór rækilega yfir það hér áðan af hverju það er tóm vitleysa að það sé illframkvæmanlegt af tímalegum orsökum að koma saman fjárlagafrumvarpi. Hann útskýrði það ákaflega vel.

Það voru tvenn önnur rök sem hæstv. fjármálaráðherra færði. Önnur voru þau, ef ég man rétt, að það væru sérstakar aðstæður. Hverjar voru þær sérstöku aðstæður? Jú, það var ný ríkisstjórn. En herra trúr, það eru ekki 20 mánuðir frá því að þessi lög voru samþykkt að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins. Þá hljóta menn, jafnvel á þeim tíma þó að þeir hafi hugsanlega verið uppteknir af öðru þá, að hafa gert sér grein fyrir því að innan skamms yrðu kosningar og allar líkur væru á því að það kynni að verða ný ríkisstjórn. Ég get ekki kallað það sérstakar aðstæður sem detta af himnum ofan án þess að upphafsmenn málsins hafi gert sér grein fyrir því. Það eru því rök sem ég blæs á.

Síðustu rökin voru þau að þingið hefði tafist. Það þarf enginn að segja mér neitt um það, ég hef verið hér áður á sumarþingum og þetta sumarþing er ekkert orðið lengra en áður og ríkisstjórnarmyndunin tók ekkert lengri tíma en áður. Eina frávikið, herra forseti, var auðvitað það að svolítill tími var tekinn í sumarbústaðaferðir og það var rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þeir hefðu etið pönnukökur. Það voru vöfflur eins og margoft kom fram í fjölmiðlum.

Sem sagt, af þeim röksemdum sem hæstv. fjármálaráðherra flutti fannst mér bara ein þess virði að ræða og ég gekk fast eftir því við hæstv. fjármálaráðherra af hvaða ástæðum það væri illframkvæmanlegt að koma fram fjárlagafrumvarpi. Hann gat ekki svarað því þá. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon svaraði því af sinni reynslu giska vel áðan og flutti fyrir því sterk rök að það væri auðvelt.

Ástæðan er kannski fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi hefur hæstv. ríkisstjórn sjálf grafið sér fúlt díki sem hún hefur steypt sjálfri sér ofan í með því að leggja fram frumvörp sem samanlagt geta þýtt að til hefur orðið gat upp á 17–20 milljarða, hugsanlega meira, sem þarf að stoppa upp í. Vitaskuld er það erfitt og til þess eru bara þrjár leiðir. Það er í fyrsta lagi að draga úr útgjöldum ríkisins, í öðru lagi að finna einhverjar leiðir til þess að auka tekjurnar, í þriðja lagi — og það sem mér fannst dyljast í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar — að auka skuldir ríkisins. En það þarf ekkert marga mánuði, alla vega ekki fleiri en þrjá til þess að velja leiðina, einhverja af þessum þremur leiðum eða blöndu þeirra allra. Svo einfalt er það nú.

Þess vegna hefði ég kosið það af því að ég veit að hæstv. forsætisráðherra, flutningsmaður málsins formlega, er staddur hér einhvers staðar nærri að hann skýrði út fyrir þingheimi hvað það er sem þessir háu herrar og frýr líta á sem óframkvæmanlegt. Ég hygg að seinni röksemdin, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í ræðu sinni áðan, gæti allt eins átt rétt á sér og jafnvel verið réttari; að það sé ekki samkomulag um hvaða leið eigi að fara innan ríkisstjórnarinnar. Við höfum séð það að ríkisstjórnin kemur mjög vanbúin til þessa sumarþings. Allar þær áætlanir sem átti að sýna okkur og að minnsta kosti annar stjórnarflokkanna lofaði að leggja fram strax eftir kosningar hafa ekki verið sýndar.

Kannski er þetta ástæðan fyrir því að einn af leiðtogum lífs fyrrverandi margra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessum sal, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og reyndar fyrrverandi forsætisráðherra, gaf ríkisstjórninni þá einkunn í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið að hann minntist þess ekki að nokkur ríkisstjórn hefði farið verr af stað. Það er algjörlega hárrétt hjá honum.

Hafi það sannast í einhverju sannaðist það í þeirri prýðilegu ræðu sem hv. þm. Brynjar Níelsson flutti í upphafi umræðunnar. Hann sýndi fram á hversu flausturslega ríkisstjórnin stígur sín fyrstu skref á þinginu, leggur fram frumvarp til að fresta framlagningu fjárlagafrumvarps, fresta samkomudegi þings og það kemur í ljós að það brýtur stjórnarskrána með þeim hætti að ef hans skyggnu augu hefðu ekki komið auga á hnökrann væri ólíklegt, af tæknilegum ástæðum, að hér væri hægt að halda þing næstu þúsund árin. [Hlátur í þingsal.] Svona var málið. Þannig tekur hæstv. ríkisstjórn sinn fyrsta vals hér.

Herra forseti. Ég tel að ég hafi skýrt komið fram þeirri afstöðu sem ég lét koma fram algerlega strax og líka í mínum þingflokki að þetta mál mundi ég því aðeins styðja að menn færðu rök fyrir því að það væri nauðsynlegt. Það hafa menn ekki gert enn þá og varla gert tilraun til. Að þeim rökum óframlögðum mun ég greiða atkvæði gegn frumvarpinu.