142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[22:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta frumvarp, ef það nær fram að ganga, mun mögulega opna heimildir Seðlabankans til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga og mögulega ganga gegn friðhelgi einkalífsins. Þetta er, með leyfi forseta, það sem Persónuvernd hefur um málið að segja:

„Þrátt fyrir að athugasemdir með frumvarpinu beri ekki annað með sér en að ætlunin sé að afla almennra upplýsinga um stöðu fjármálafyrirtækja telur Persónuvernd að afmarka þurfi ákvæði 4. gr. frumvarpsins nánar þar sem núverandi orðalag hennar gæti ella falið í sér opnar heimildir til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga. Þá telur stofnunin rétt að umrætt ákvæði verði takmarkað við upplýsingar um lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuð.“

Persónuvernd leggur því til breytingu á b-lið 4. gr. frumvarpsins og það er breytingartillaga okkar pírata við þessa grein. En við leggjum núna til að þetta mál verði tekið af dagskrá og unnið betur. (Forseti hringir.) Við leggjum til við forseta að hann taki málið af dagskrá og þetta verði unnið betur í haust.