142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[22:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir að það skiptir máli að náist þverpólitísk samstaða um stór og mikilvæg mál sem eru ekki í eðli sínu pólitísk. Varðandi eftirlitsstofnanirnar sem hér hafa komið til umræðu í þessu samhengi og víðara samhengi vegna annarra mála sem vísað er til tel ég að við munum áfram þurfa að taka það kerfi til skoðunar og velta því fyrir okkur hvort við höfum byggt upp það stofnanafyrirkomulag, stofnanastrúktúr sem best tryggir að upplýsingar flæði þangað sem þeirra er þörf og að yfirsýn sé á einum stað yfir hina kerfislægu áhættu.

Í því sambandi get ég ekki neitað því að það hefur orðið mér mikið umhugsunarefni að Seðlabankinn hefur ítrekað á undanförnum árum kallað eftir heimildum til að fá frekari upplýsingar á sama tíma og slíkar upplýsingar er hægt að sækja inn í Fjármálaeftirlitið. Þetta er þekkt umræða þar sem hnökrar hafa reynst vera á því að upplýsingar flæði síðan áfram innan stofnanastrúktúrsins. Þetta eru málefni sem hljóta að gefa okkur tilefni til að spyrja hvort enn þurfi að gera betur þannig að tregða innan kerfisins til að deila upplýsingum verði ekki til þess að hlutir falli milli stafs og hurðar.