142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrr í dag áttum við í smá orðaskaki, ég og hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson. Við vorum að spjalla um það sem ég var að velta fyrir mér, hvers vegna skyldi alveg á lokametrunum í málinu öllu eiga að bæta við hlunnindin og lækka hlut þjóðarinnar enn frekar í því sem kemur til hennar af auðlindanýtingunni. Ég velti því fyrir mér hvað þetta gæti verið. Varla væru þeir að meina það að láta þetta standa út af því að þá væru meiri líkur á að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan velti ég fyrir mér hvort þetta yrði dregið til baka. Svo kemur hv. þm. Jón Gunnarsson upp í pontu og talar um sáttarhönd. Þá hugsa ég: Já, hann er, eins og við ræddum um, líklega að reyna að fá það í fjölmiðla að ríkisstjórnin hafi rétt út sáttarhönd í málinu. Hún er búin að lækka gjaldið um 3 milljarða, svo skyndilega á lokametrunum ætlar hún að taka örlítið meira, en nei, ég er hættur við, hérna er sáttarhöndin. (Forseti hringir.) Og þetta er komið í fjölmiðla. Sáttarhöndin er í fjölmiðlunum. [Hlátur í þingsal.]