142. löggjafarþing — 23. fundur,  5. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[00:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér kemur ráðherrabekkurinn og talar um að þessi umræða sé ómálefnaleg og frjálslega sé farið með tölur. Hvaða tölur er farið frjálslega með og hver gerir það? Eru það 6,4 milljarðarnir sem er verið að lækka veiðigjöldin um á ársgrundvelli samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins sjálfs? Eru það tölurnar sem við erum að fara frjálslega með? Um hvað eru menn að tala? (Gripið fram í.) Hvað er ómálefnalegt? Er það ómálefnaleg umræða, virðulegi forseti, þegar minni hluti nefndarinnar tekur mark á umsögnum hagfræðinga sem sýna okkur fram á að veiðigjaldið er núna að lækka á bolfiski þannig að þegar tekið hefur verið tillit til afslátta og annars er það nánast komið niður í núll? Er það ómálefnaleg umræða? Virðulegi forseti. Þetta er ekki boðlegt.

Virðulegi forseti. Ég verð líka að segja að það hryggir mig að hér séu menn að fara af braut sátta, fara af braut hóflegrar auðlindarentu (Gripið fram í.) og inn á braut sýndarauðlindarentu.

Virðulegi forseti. 70% þjóðarinnar vilja ekki lækka (Forseti hringir.) veiðileyfagjaldið. 15% kosningarbærra manna hafa ritað undir áskorun til (Forseti hringir.) Alþingis um að lækka ekki veiðigjöldin. (Gripið fram í.) Á engan þessara aðila er hlustað. (Gripið fram í.) Engan.