142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[00:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allt frá því að þetta mál kom inn í þingið sem fyrsta mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gagnrýndum við að hér væri verið að taka fram fyrir hendurnar á þinginu sem afgreiddi lög fyrir örfáum vikum. Rökin fyrir því að taka þetta mál inn í þingið voru þau að það væri lýðræðislegra, 63 þingmenn fengju að afgreiða málið, þeir fengju að hafa eitthvað um það að segja hverjir væru valdir. Það væri gaman að kanna hjá hverjum og einum hverjir hafa skoðað þau nöfn sem hér eru birt, hverjir hafa fjallað um þau, hverjir fóru í að velja.

Það mátti ekki setja niður valnefnd sem átti að reyna að gæta ákveðins jafnræðis heldur hefur verið ákveðið að fara í pólitískan hráskinnaleik og styrkja stöðu stjórnarflokkanna á Ríkisútvarpinu. Það er algjörlega í andstöðu við allt sem við erum búin að vinna að í sambandi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þá þróun sem við viljum sjá í samfélaginu um hlutlæga afgreiðslu mála. Síðan, undir því yfirskyni að hér eigi að auka lýðræðið, er fjölgað í stjórninni og svo eru menn gerðir ómerkir orða sinna af einhverjum, ég hef ekki hugmynd (Forseti hringir.) um hverjum, og menn skipta þannig að það eigi að vera 6:3. Ég ætla að vona að það verði ekki niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni sem hér fer fram(Forseti hringir.) og þetta verði leiðrétt af þeim þingmönnum sem eiga að greiða leynilega atkvæði.