142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Fyrst ein staðreynd. Lögum um Ríkisútvarpið var nýlega breytt, m.a. á þann veg að stjórn stofnunarinnar fær meira vald yfir dagskrárstefnu. Þetta er staðreynd. Síðan kemur röksemd, röksemd stjórnarmeirihlutans, sem segir: Það er lýðræðislegt að æðsta fulltrúasamkunda þjóðarinnar, Alþingi Íslendinga, kjósi alla stjórnina. Það er lýðræðislegt. Gagnrök stjórnarandstöðunnar eru að við þessar aðstæður og þá lagabreytingu sem ég gat um er hætta fyrir hendi að flokkspólitísk stjórnun ráði meira um dagskrárstefnuna. Æskileg eða hugsanleg millilending eða málamiðlun hefði verið sú að minni hlutinn á Alþingi, stjórnarandstaðan, skipaði meiri hluta í stjórn Ríkisútvarpsins, vegna þess að Ríkisútvarpið er ekki bara menningarstofnun, heldur fréttamiðill sem á að gegna ákveðnu lýðræðislegu aðhaldshlutverki í þjóðfélaginu.

Það sem hins vegar er að gerast núna er að fjölgað er (Forseti hringir.) fulltrúum kosnum á Alþingi og stjórnarmeirihlutinn fær þá (Forseti hringir.) alla. Framsóknarþingmenn vitnuðu (Forseti hringir.) um daginn um ágæti þess að (Forseti hringir.) fylgja íhaldinu í þessu máli. Á enn að vitna? (Forseti hringir.)