142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við úr stjórnarandstöðunni gengum hér til atkvæða í gær og studdum fjölgun úr sjö í níu. Það gerðum við á grundvelli samtala við fólk sem við höfum hingað til bara reynt af heiðarleika einum. Ég mun aldrei efast um heiðarleika þess góða fólks.

Þegar þessi staða kemur upp ber auðvitað formönnum stjórnarflokkanna að axla ábyrgð. Þeir passa að gera það ekki. Þeir kasta henni yfir á félaga sína. Það er ekki stórmannlegt. Þeir máttu vita að við værum ekki að styðja við lýðræðislegan fjölbreytileika í stjórn Ríkisútvarpsins með því að fjölga þeim sem voru þar fyrir. Hvernig í ósköpunum átti að vera hægt að koma því heim og saman að við værum að styðja við lýðræðislegan fjölbreytileika með því að passa að það yrði enginn meiri fjölbreytileiki í stjórninni?

Þetta mál snýst ekki um hagsmuni einstakra flokka í stjórnarandstöðunni, þetta snýst um það að fjölbreytileiki sé tryggður með því að allir flokkar á Alþingi eigi aðkomu að stjórn Ríkisútvarpsins. Það er mikilvægt verkefni í þágu lýðræðis í landinu. Þessir tveir (Forseti hringir.) flokksformenn eru að bregðast trausti.