142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nú heldur dapurlegt að þurfa að enda sumarþingið á þessum nótum ef svo fer að þetta samkomulag stendur ekki í kosningunni. Ég þakka formönnum þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir að hafa núna algjörlega skýrt hvernig þetta mál liggur fyrir. Það er staðfest að þingflokksformenn töldu sig hafa gengið frá samkomulagi og í þeim krafti fer formaður allsherjar- og menntamálanefndar upp og gefur þá yfirlýsingu sem hún gefur. Þannig að þeirra hlutur liggur fyrir. En af einhverjum ástæðum er ekki hægt að efna þetta samkomulag og hvar er nú líklegt að valdataumarnir endi sem gera það að verkum að það er ekki hægt? (Gripið fram í.)

Það eru auðvitað tveir menn sem hafa það algjörlega í hendi sinni að neyða ekki formenn þingflokka sinna til þess að þurfa koma hér upp og biðjast afsökunar. Uppástunga hv. þm. Kristjáns Möllers er ágæt, er ekki hægt að leysa þetta þannig að sá flokkanna sem fær stjórnarformanninn láti sér nægja tvö sæti? Eins er kosið í þessa stjórn árlega og stjórnarflokkarnir gætu þá skipst á sitt hvort árið að vera með þrjá og tvo menn. Það eru ýmsar leiðir til þess. (Forseti hringir.) Það eina sem vantar er viljinn hjá tveimur mönnum í þessum sal. (Forseti hringir.) Sýni þeir hann ekki í verki þá segi ég bara: (Forseti hringir.) Ekki mundi ég vilja vinna fyrir svona menn.