142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur gengið einbeitt til verka allt frá því að til hennar var stofnað. Verkefni stjórnarinnar eru skýr, bætt staða íslenskra heimila og uppbygging atvinnustarfsemi. Ein fyrsta ákvörðun ríkisstjórnarinnar laut að því að virðisaukaskattur á hótelgistingu yrði óbreyttur, í samræmi við og líkur því sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. Ákvörðunin var tekin vegna þeirra gífurlega áhrifa sem ferðamennskan hefur á gjaldeyristekjur þjóðarinnar og lífsafkomu fjölda fólks og heimila úti um land allt. Ríkisstjórnin taldi rétt að skattheimta þessarar undirstöðuatvinnugreinar væri með líkum hætti og í helstu samkeppnislöndum meðan greinin stækkar og eflist.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Nú er hafin vinna við uppbyggingu nýrra hótela; á Höfðatorgi, við Hörpu og víðar í Reykjavík svo og úti um land. Nú í morgun bárust fréttir af því í nýútkominni skýrslu Boston Consulting Group sem kynnt var í Hörpu að gert væri ráð fyrir því að á næstu tíu árum mundi fjöldi ferðamanna sem sækir Ísland heim tvöfaldast og verða um 1,4 milljónir gesta. Talið er í skýrslunni að störfum í greininni muni fjölga um 5 þúsund á tímabilinu. Stærsta fyrirtæki Íslands í ferðamennsku, Icelandair, ætlar enn að bæta við áfangastöðum á næsta ári með tilheyrandi aukningu flugvélakosts líkt og fyrirtækið gerði á þessu ári.

Allt eru þetta góðar og ánægjulegar fréttir en nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því að ferðamennska er í eðli sínu ekki vistvæn atvinnugrein. Því þarf þegar að grípa til ráðstafana til að tryggja innviði viðkvæmra fjölsóttra ferðamannastaða til að tryggja að einstök náttúra Íslands bíði ekki skaða af ágangi ferðamanna. Nauðsynlegt er í þessu skyni að skipuleggja ferðir gesta um landið og auka komur ferðamanna utan háannatíma eða skapa nýjan háannatíma að hausti og vetri.

Báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa skýra sýn á nauðsyn þess að taka upp gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum þannig að þeir fjármunir sem inn koma renni til uppbyggingar og verndar. Nú er leitað leiða til að gjaldtaka geti hafist sem fyrst. Í áðurnefndri skýrslu Boston Consulting er tekið undir hugmyndir okkar framsóknarmanna um útgáfu náttúrukorta eða -passa í þessu skyni.

Herra forseti. Stóriðjutækifærin á Íslandi eru fjölmörg. Tvö eru þó sýnu nærtækust, þ.e. stóraukin matvælaframleiðsla og fullvinnsla afurða svo og uppbygging áburðarverksmiðju. Möguleikar gróðurhúsaræktar á Íslandi eru nær óendanlegir. Ræktun grænmetis án þess að eiturefni komi við sögu í framleiðsluferlinu er ávísun á tekjur af þeim enda markaðarins sem hæst verð greiðir. Á Suðurlandi einu starfa nú rúm 600 manns við ylrækt. Hægur vandi er að fjölga störfum í greininni stórlega, auka framboð nýrra tegunda og hefja útflutning. Skapa þarf greininni skilyrði til vaxtar með lækkun raforkuverðs til ylræktar og nýta miklu meira af rafmagnsframleiðslu landsins í þessa starfsemi. Stefna þarf að auknum niðurgreiðslum raforkuverðs á næsta ári til bænda en lokatakmarkið hlýtur að vera að einingarverð raforku til ylræktar verði líkt og til annarrar stóriðju.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin mun stíga skref í þá átt að einfalda reglugerð um atvinnulífið, m.a. í því skyni að auðvelda uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig mun til dæmis ferill uppbyggingar fiskeldisfyrirtækja verða einfaldaður og þar með komið í veg fyrir að fyrirhuguð uppbygging á því sviði tefjist líkt og gerst hefur á undanförnum árum.

Fullvinnsla sjávarafurða er veigamikill þáttur í framtíðaruppbyggingu Íslands. Það er djarft markmið sem fram hefur komið í sjávarklasanum að auka verðmæti hvers þorsks úr 2 þús. kr. á einingu í 5 þús. kr. Ríkisstjórnin hefur sýnt í verki vilja sinn til að skapa útgerð og fiskvinnslu eðlilegan og sanngjarnan rekstrargrundvöll.

Aukin framleiðsla landbúnaðarafurða er mikilvægur þáttur atvinnuuppbyggingar til framtíðar. Heimurinn kallar sífellt á meiri matvæli og ljóst er að erfiðara verður í náinni framtíð að anna eftirspurn. Landbúnaðarvörur okkar eru af hæstu gæðum og eiga því að seljast á hæsta verði.

Hæstv. forseti. Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt að stefna að byggingu áburðarverksmiðju á Íslandi. Heimsmarkaðsverð á áburði hefur margfaldast á undanförnum árum, mest vegna aukinna kaupa Kínverja og Indverja. Með byggingu áburðarverksmiðju er hægt að slá margar flugur í einu höggi. Hráefnið er að mestu leyti heimafengið, köfnunarefni unnið úr loftinu og brennistein má vinna úr útblæstri gufuaflsvirkjana, t.d. á Hellisheiðarvirkjun. Þannig má vinna verðmæti úr úrgangi sem nú liðast um loftið til óþurftar. Kalk er svo hægt að fá á Vestfjörðum og því má segja að öll skilyrði séu til að byggja hér heimafengna áburðarverksmiðju til útflutnings til að skapa okkur gjaldeyristekjur.

Við skulum vera bjartsýn, herra forseti.