142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni sérstaklega fyrir að koma hér og tala við okkur vegna þess að miðað við það sem hann sagði sé ég ekki betur en við séum sem samfélag dæmd til að enda réttindalaus. Það hljómar kannski samsæriskenningalegt en það er ekkert samsæri á ferðinni. Samsæri er skilgreint sem það þegar tveir eða fleiri taka sig saman til að fremja ólöglegt athæfi. Svona samsæri væri ekki mögulegt vegna þess að það gæti ekki verið ólöglegt. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Ef þetta virkar einfaldlega þannig að við getum við hvert fótmál ákveðið að taka burt friðhelgi einkalífsins vegna þess að það hentar yfirvöldum á hverjum tíma er það eðlileg þróun með tímanum, bara þetta eitt, að við hljótum að enda réttindalaus. Við hljótum að gera það vegna þess að við viljum vinna vinnuna okkar, við viljum hafa tæki til þess og stundum stangast það á við réttindi borgaranna. Þess vegna eru til borgararéttindi, til að stoppa okkur í að ganga of langt. Til þess eru þau. Það er ekki hægt að undirstrika þetta nógu oft. Þá er eins og stjórnarskráin eða kerfið hérna virki þannig að það vinni gegn því sem því er ætla að tryggja, nefnilega réttindum borgaranna. En ég hefði mikinn áhuga á því að ræða þetta aðeins betur og þá að sjálfsögðu í samráði við hv. þm. Brynjar Níelsson, þann mæta lögfræðing.

Mér verður líka hugsað til talnanna sem hv. Pétur H. Blöndal rifjaði upp áðan. Hann talaði um 18% verðbólgu og 40% gengisfall sem átti sér stað í hruninu. Sjálfsagt fer það eftir því hvenær maður mælir það hver talan er nákvæmlega. Eins og hann benti réttilega á hafa efnahagshörmungar dunið yfir íslenska þjóð áður. Það hefur gerst margsinnis, það gerist reglulega, auðvitað, vegna þess að við erum með krónu. Förum ekki út í það hér og nú. Svo talaði hann um að það séu kannski 10–20% húsnæðiseigenda sem eru í vandræðum með greiðslu. Er það í alvörunni neyðarástand? Ég spyr bara eins og Jesús spurði gyðingana: Er það? Er það virkilega? Ég er ekki viss.

Mér finnst að við eigum að vera viss. Ég veit ekki betur en meðalhófið sé til þess að við tryggjum að við séum viss og við erum það ekki. Fjórir af níu meðlimum hv. allsherjar- og menntamálanefnd telja frumvarpið ekki standast meðalhóf. Það er ekki meiri hluti en það er umtalsverður hluti, það er næstum því helmingurinn. Ætti staðall okkar á mannréttindi ekki að vera örlítið hærri en það? Helst vildum við auðvitað hafa sátt. Mesta kaldhæðnin í þessu er sú að það er sátt um að gera þetta, bara ekki hvernig og hvenær. Og það að við séum að láta tímapressu ráða þessu, af öllum hugsanlegum hlutum sem gætu stoppað okkur — hugsið ykkur, þetta er pólitík. Við sitjum hérna kjörnir þingmenn, stanslaust að rífast um næstum því hvað sem er, stundum bara til að rífast yfir einhverju að því er virðist, en um þetta er sátt, hér er meira að segja mjög ríkur samstarfsvilji. Ef ég hefði haft vit á því hefði ég gert þetta að kosningaloforði okkar pírata fyrir kosningar. Kosningaloforðið var aðeins öðruvísi, það varðaði fjárlög en prinsippið er það sama. Það er hægt að nýta tæknina til að leysa alls konar svona vandamál og ég væri ólmur til í að hjálpa til við það. En nei, það má ekki út af tímapressunni, og það er óþolandi.

Hugsum líka um það hversu óskýrt markmiðið er raunverulega, t.d. hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann spáir því að þegar við förum að skoða þetta komi vandi leigjenda í ljós. Hvers vegna var þá ekki leigjendakrísa fyrir kosningar? Ég veit ekki hjá hversu mörgum, hvaða tölu maður á að skjóta á, en leigjendur eru í bölvuðum vandræðum. Eru þeir ekki í krísu? Maður þarf húsnæði. Það er ekki valkvætt. Maður þarf húsnæði og ef maður hefur ekki efni á því hefur maður ekki húsnæði. Það er vandamál, það er krísa. En þurfum við að skerða borgararéttindi til þess? Hvernig þætti sjálfstæðismönnum ef við færum að storka svolítið eignarréttinum til að leysa slík vandamál? Þá held ég að upp kæmu einhver önnur svör og með réttu, mætti ég bæta við.