142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim upplýsingum sem fram koma hjá hæstv. forseta um að forsætisnefnd hafi fjallað um þetta mál. Það er gott að við sem hér störfum, og sérstaklega við sem stýrum nefndum, höfum það á hreinu hvernig verksvið þeirrar nefndar er, hvar verkefni skarast og hvað er hvers. Auðvitað er ekkert vit í því að við séum að tví- og þrívinna alla hluti hér. Þess vegna er mikilvægt að við öll hér séum sammála um að fara að þingsköpum og virða þær leikreglur sem við sjálf höfum skapað okkur.

Á síðasta kjörtímabili var búin til ný nefnd. Þeirri nefnd hefur verið falið að fjalla um þá skýrslu sem hér er til umræðu. Að sjálfsögðu verða húsnæðismál áfram til umræðu í velferðarnefnd og þá undir þeim formerkjum. Nefndin sem við sjálf bjuggum til, og ég hélt að þeir flokkar sem nú sitja í stjórnarandstöðu hefðu verið mjög áfram um að búa til, er með sitt verkefni og ég vonast til að henni sé vel stýrt af hv. stjórnarandstöðuþingmanninum Ögmundi Jónassyni.