142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Spurt er að því hvort þær ráðstafanir og lækkanir sem fólk hefur þegar notið dragist frá. Ég veit náttúrlega ekki frekar en aðrir hérna hverjar tillögur hópsins verða sem nú er að störfum og vinnur að vönduðum og sanngjörnum tillögum til þingsins. Einnig er spurt um afstöðu mína, hver hún gæti hugsanlega hafa verið. Ég man eftir því að hafa fengið þá spurningu áður á fundum í aðdraganda kosninga. Þá svaraði ég á þá leið að mér þætti réttlátt að menn nytu ekki tvisvar sinnum leiðréttingar heldur væri þetta hugsað til þess að jafna aðstöðu manna.

Sumir hafa lent í því að fá leiðréttingu fyrir dómstólum, fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, af því að þeir voru með ólögleg lán. Vilja menn innifela þá líka, að þeir fái líka lækkun? Að sjálfsögðu ekki, þarna er verið að reyna að jafna leikinn. Hafi menn þegar fengið einhverja leiðréttingu á forsendubrestinum þurfa þeir ekki að fá hana aftur, það er mín afstaða. Ég vil ekki grípa fram fyrir hendur nefndarinnar eða störf þingsins. Við munum taka afstöðu til allra þessara tillagna þegar þær koma til þingsins.

Varðandi tímann kemur mjög skýrt fram í þingsályktunartillögunni að tillögugerð skuli lokið fyrir nóvemberlok. Tillögur ættu þá væntanlega að koma til þingsins fljótlega eftir það. Ég veit ekki hvað þingið þarf að fjalla lengi um þetta mál en ég reikna með góðu samstarfi frá fyrirspyrjanda hv. og við vonum öll að þetta gangi hratt og vel fyrir sig.