142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

kynbundinn launamunur.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er alveg rétt hjá honum að þetta er ekki áhlaupsverkefni í þeim skilningi að við getum leyst það á einu ári. En við getum náð umtalsverðum árangri í kjarasamningum þar sem við leggjum grundvöll til nokkurra ára. Til þess þarf auðvitað að vera eindreginn vilji til að fara alla leið. Við þurfum að vera tilbúin að beita starfsmati til að meta með réttum hætti störf og starfsgreinar þar sem konur eru í miklum meiri hluta.

Við þurfum líka að hrinda í framkvæmd jafnlaunavottuninni þannig að fyrirtæki fái vottun ef þau standa sig vel og sýna að það er ekki kynbundinn launamunur hjá starfsliði þeirra. Það er með þessum aðgerðum öllum sem við erum núna komin á aðgerðastig með að hrinda í framkvæmd sem við gætum náð árangri. Það er búið að vinna mikla vinnu í að þróa staðalinn fyrir (Forseti hringir.) jafnlaunaáætlunina og núna er kominn tími aðgerða. Ég (Forseti hringir.) hvet hæstv. ráðherra til að setja þetta sem forgangsmál í (Forseti hringir.) samtölum við aðila vinnumarkaðarins.