142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

friðlýsing Þjórsárvera.

[15:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og áhugaverða fyrirspurn og gott tækifæri til að taka enn einu sinni einmitt þessa umræðu um Þjórsárverin. Til að koma því enn og aftur alveg á hreint, sé einhver í vafa um þann vilja sem sá sem hér stendur hefur gagnvart því, er engin spurning að ég tel, eins og kom fram í blaðaviðtalinu, almenna sátt ríkja og hef satt best að segja engan hitt sem er ekki sammála því að friðlýsa beri Þjórsárverin, alla vega ekki undir það síðasta, og ég mun stefna að því áfram.

Það er rétt að það komu fram athugasemdir á síðustu stundu og kökurnar höfðu verið bakaðar og pönnukökurnar einnig. Ég held að því hafi verið komið í frost og verið bjargað og það bíður bara þeirrar stundar þegar við köllum til þessarar samkomu og ég hlakka reyndar til þess.

Markmið þess sem hér stendur er að undirrita friðun Þjórsárvera en ég vil ekki gefa tímasetningu á það. Það er rétt sem kom fram hjá fyrirspyrjanda, það komu fram athugasemdir og þegar ég fór að skoða þær í framhaldinu — af því að það gafst ákaflega lítill tími til að yfirfæra það þegar þær komu fram, það stóð til að ganga frá þessari friðlýsingu dagana þar á eftir — kom í ljós að þær voru á ákveðnum rökum reistar. Það þarf að leysa úr þeim vanda sem þar kom upp og það er unnið að því núna í ráðuneytinu og ég vænti þess að því ljúki fyrr en seinna. Ég mun sjálfur eiga samtöl fljótlega við sveitarstjórnarmennina sem er á þessu svæði og reyna að finna þær lausnir sem hugsanlega þarf að leysa úr, í það minnsta koma málinu aftur á hreyfingu þannig að við getum gengið (Forseti hringir.) frá því að friðlýsa Þjórsárverin.