142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

rekstur Landhelgisgæslunnar.

[15:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Já, það er dýrt að vera fátækur, ekki sælt eins og segir í kvæðinu heldur dýrt, það er alveg rétt.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans en ég bendi samt á það sem hefur komið fram í fréttum a.m.k., að kostnaður við þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafi aukist vegna aukinna útkalla. Það eru auðvitað þáttur sem ekki er hægt að sjá alveg fyrir og við horfumst auðvitað í augu við það. Ef tilefni til útkalla í þyrlusveitinni verða fleiri en gert er ráð fyrir þá sjáum við hvað er að gerast, þá er því mætt með því að skera niður útgjöld til reksturs skipanna. Ég hef áhyggjur af þessari stöðu. Við höfum áður tekið hér á þingi umræðu um öryggismál sjómanna og ég held að flestir séu sammála um að það er mjög mikilvægt að huga að þeim og láta ekki þau lenda undir niðurskurðarhnífnum. Ég ítreka þau sjónarmið mín við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að það er mjög mikilvægt að tryggja rekstur skipa Landhelgisgæslunnar. Það er líka dýrt að láta þau vera bundin við bryggju.