143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við hefjum nú störf á nýju þingi, 63 þingmenn með eitt markmið. Markmið okkar er að bæta líf Íslendinga allra. Við munum skiptast á skoðunum um hvaða leiðir séu bestar til þess fallnar að ná þessu markmiði. Það eru hindranir í veginum en tækifærin sem við stöndum frammi fyrir, Íslendingar, eru slík að þau hljóta að blása okkur í brjóst krafti og þori til að ryðja burt öllum þeim hindrunum sem á vegi okkar verða. Við höfum traustan grunn til að byggja á, sá grunnur er landið okkar og þrautseigja, dugnaður og útsjónarsemi þjóðarinnar og fyrri kynslóða Íslendinga.

Hvað getum við byggt á þessum grunni? Hversu langt getum við komist með sameiginlegt markmið okkar?

Byrjum á að ímynda okkur fyrirmyndarland, land þar sem allt er eins og best verður á kosið. Slíkt land væri á besta hugsanlega stað á hnettinum, á skilum Evrópu og Norður-Ameríku. Það væri í norðri, á þeim stað á heimskringlunni sem stendur best að vígi þegar litið er til breytinga í náttúrunni, til samgangna, mannfjöldaþróunar, matvælaframleiðslu og öryggis. Landið væri eyja með skýr landamæri frá náttúrunnar hendi og byggð af einni þjóð með sambærilegt gildismat, herlausri þjóð sem býr samt við meiri frið og meira öryggi en flestallar þjóðir heims. Þjóðin í þessu ímyndaða fyrirmyndarlandi er ekki fjölmenn og hefur því nóg til skiptanna. Landið og sjórinn eru rík af þeim náttúruauðlindum sem verða eftirsóttastar til framtíðar. Landrými er nægt, loftið og vatnið er hreint og náttúrufegurðin einstök.

Í landinu er næg umhverfisvæn orka, húsakynni eru hituð með varma sem streymir upp úr jörðinni og þar eru framleidd heilnæmustu og bestu matvæli sem völ er á. Þar eru allir fæddir jafn réttháir og grundvallarsjónarmið mannréttinda eru í hávegum höfð. Öllum er tryggð besta mögulega heilbrigðisþjónusta og allir eiga kost á að mennta sig á því sviði sem þeir finna kröftum sínum bestan farveg. Fjölbreytilegt menningarlíf og öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf veitir landsmönnum margbreytilegt, skemmtilegt og heilbrigt líf. Þessi frjói jarðvegur veldur því að af þessari fámennu þjóð spretta vísindamenn, íþróttamenn, tónlistarmenn, rithöfundar og annað listafólk á heimsmælikvarða.

Þótt tiltölulega fátt fólk búi í þessu stóra landi tryggja greiðar samgöngur að landið og þar með þjóðin er ein heild, alls staðar eru innviðir traustir og allir hafa aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Landið er framarlega í innleiðingu og þróun nýrrar tækni. Þar er gott að stofna og reka ný fyrirtæki. Fríverslunarsamningar við lönd um allan heim og staðsetning landsins í miðpunkti flutningaleiða milli stærstu markaðssvæða heims þýða að landsmenn geta framleitt gæðavörur og flutt út um víða veröld. Allir íbúar landsins búa við góð kjör vegna þess að tækifærin eru nýtt skynsamlega og í allra þágu. Hvergi er betra að ala upp börn eða dvelja við öryggi á efri árum.

Flestum jarðarbúum þætti þessi lýsing á landi sjálfsagt hljóma eins og fjarstæðukennd „útópía“, óraunverulegt ævintýraland. En fyrir okkur Íslendinga er þetta ekki svo fjarlægt. Margt er þegar til staðar og annað er innan seilingar ef við stöndum vel að verki. Eða telur einhver að eitthvað af því sem ég taldi upp geti ekki orðið raunin á Íslandi?

Það er hins vegar ekki sjálfgefið. Við getum líka fjarlægst þessa mynd í stað þess að nálgast hana. En það hvort verður höfum við í hendi okkar. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð og því fylgir að við erum okkar eigin gæfu smiðir.

Fyrstu hindranirnar sem við þurfum að ryðja úr vegi eru þær sem felast í efnahagslegri stöðnun og skuldasöfnun heimila, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins. Fjárlögin sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær lýsa upphafi sóknar. Þau boða lækkandi skuldir um leið og hafist er handa við endurreisn grunnstoða, heilbrigðisþjónustu og annarra velferðarmála. Álögur á millitekjufólk og lágtekjufólk eru minnkaðar og fyrri skerðingar á kjörum eldri borgara og öryrkja afnumdar. Grunnur er lagður að vexti, fjárfestingu, atvinnusköpun og kjarabótum.

Nú munu gömlu bankarnir, sem enn eru reknir sem fjárfestingarsjóðir, loks greiða skatta eins og önnur fyrirtæki. Það eru mikilvæg nýmæli og raunar merkilegt að það skuli ekki hafa gerst fyrr. Ávinningur gömlu bankanna og vogunarsjóðanna, sem fjárfest hafa í þeim, er til kominn vegna þess skjóls sem neyðarlögin og höftin sköpuðu.

Íslendingar fengu í fyrstu ekki mikla hjálp við að búa til þá stöðu eða skilning hjá mörgum erlendum ríkjum. Sum nágrannalönd réðust meira að segja í þvingunaraðgerðir þegar verst stóð á hjá okkur. Íslendingar voru beittir hryðjuverkalögum og víða voru gömlu bankarnir þvingaðir til að selja eignir sem síðan hafa margfaldast að verðmæti. Þetta var gert til að verja hagsmuni viðkomandi ríkja. Á meðan hafa Íslendingar sýnt einstaka þjónustulund. Neyðarlög og höft hafa varið eignir gömlu bankanna og háir vextir hafa verið greiddir til að auka þær enn frekar. Vogunarsjóðir sem keyptu kröfurnar eftir fall bankanna, kröfur sem ríkið hefði átt að kaupa, hafa margfaldað fjárfestingu sína.

Það er hvorki sanngjarnt né eðlilegt að íslenskt samfélag sé látið bera allan kostnaðinn af því að afnema höftin. Það er því nauðsynlegt að skoða hagkerfið allt í samhengi við afléttingu hafta. Það er almenningur í þessu landi sem tekur áhættuna af því hvernig til tekst með skuldaskil gömlu bankanna og afnám hafta. Hvað mundi það þýða ef gjaldeyrishöftum yrði fyrst létt af gömlu bönkunum, svo að kröfuhafar fengju úrlausn sinna mála á undan öðrum, og ríkið tæki að sér að skipta kröfum í gömlu bankana í gjaldeyri á haftagengi? Þá væri ríkið í raun að skuldsetja sig enn frekar til að auka verðmæti krafnanna og íslenskt samfélag sæti uppi með mörg hundruð milljarða króna kostnað. Slíkt mundi skerða lífskjör á Íslandi til langrar framtíðar og hindra okkur í að endurreisa heilbrigðiskerfið og tryggja almenna velferð.

Afnám hafta er öllum í hag og þess vegna er það sameiginlegt hagsmunamál allra að skapa þær aðstæður sem leyfa afnám þeirra.

Samhliða því að lokið verði við að hleypa loftinu úr eignabólunni er eðlilegt og rétt að hleypa lofti úr hinni hlið eignabólunnar; skuldabólunni. Niðurfærsla skulda er fyrst og fremst réttlát efnahagsleg aðgerð sem mun veita heimilum nauðsynlegt súrefni svo að þau geti dregið andann.

Starf sérfræðihóps um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána gengur vel. Ljóst er að aðgerðirnar og tengdar grundvallarbreytingar á íslenskum fjármálamarkaði, meðal annars breyting úr verðtryggðu kerfi yfir í óverðtryggt og endurskoðun húsnæðiskerfisins, fela í sér einhverjar umfangsmestu umbætur sem ráðist hefur verið í á Íslandi um áratugaskeið. Slíkar breytingar taka óhjákvæmilega tíma og þær geta orðið umdeildar en mikilvægt er að hafa hugfast að þetta eru nauðsynlegar aðgerðir til að koma á heilbrigðu fjármálakerfi og bæta hag landsmanna.

Almenn skuldaleiðrétting mun ekki leysa vanda allra. Þess vegna var nauðsynlegt að huga að fleiri úrræðum og að því hvernig mætti byggja upp húsnæðiskerfi sem nýtist öllum þótt aðstæður fólks séu ólíkar.

Undir stjórn félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra er nú unnið að lausn sem gera á eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veð stendur ekki undir. Þetta er hugsað sem tímabundin aðgerð til að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Þá er einnig unnið að útfærslu leiða til að aðstoða eignalausa einstaklinga við að greiða kostnað þegar þeir óska eftir gjaldþrotaskiptum. Niðurstöður ættu að liggja fyrir á næstu vikum.

Verkefnisstjórn mun í byrjun næsta árs skila tillögum um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þar munu koma fram tillögur um hagkvæmasta fyrirkomulagið við fjármögnun almennra húsnæðislána, leiðir til að tryggja virkan leigumarkað og tillögur um hvernig best verði staðið að skilvirkum félagslegum úrræðum fyrir þá sem þess þurfa með.

Mikilvægast er þó að á Íslandi sé nægt framboð af atvinnu og að laun fólks dugi til að standa straum af húsnæðiskostnaði auk annarra lífsgæða sem við teljum að Ísland eigi að geta staðið undir. Til að fjölga störfum og bæta kjör verður fjárfesting að aukast til mikilla muna á Íslandi. Ríkisstjórnin vinnur að því á fjölmörgum vígstöðvum að skapa þær aðstæður að hér verði gott að stofna og reka fyrirtæki.

Nú er unnið að miklu átaki við að bæta og einfalda það regluverk sem fyrirtæki starfa eftir. Með nýju fjárlagafrumvarpi er hafist handa við skattkerfisbreytingar sem munu skapa jákvæða hvata, hvata til að fjárfesta, ráða fólk í vinnu og framleiða meiri verðmæti. Lögð verður áhersla á að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum og öðrum skapandi greinum. Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir verður aukinn og stuðlað að sókn á nýja markaði, meðal annars á grundvelli fríverslunarsamninga.

Fyrirtæki í vexti þurfa fjármagn. Það er afar mikilvægt að lífeyrissjóðirnir taki aukinn þátt í fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Ef við trúum því raunverulega að nýsköpun sé forsenda velferðar til framtíðar liggur beint við að lífeyrissjóðirnir taki þátt í að skapa þau auknu verðmæti sem þarf til að standa undir lífeyri framtíðarinnar. Löggjöf þarf að sjálfsögðu að endurspegla þetta en í ljósi þeirrar nánu tengingar sem er milli aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna er eðlilegt að þeir taki þátt í að móta slíka umgjörð með stjórnvöldum, samhliða kjarasamningum.

Það er ljóst að hinn mikli vaxtamunur íslensku bankanna og háir stýrivextir Seðlabankans eru ekki til þess fallnir að stuðla að fjárfestingu og verðmætasköpun. Vextir verða að byggjast á því að ný verðmæti séu að skapast. Sumir halda því reyndar fram að ekki sé hægt að gera ráð fyrir vexti og atvinnusköpun með krónu sem gjaldmiðil. Slíkar fullyrðingar voru alltaf rangar en nú eru þær nánast orðnar skoplegar.

Á Íslandi hefur kaupmáttur aukist meira en í nokkru evrulandi, þar með talið Þýskalandi, þrátt fyrir krónu í höftum. Atvinnuleysi í „krónulandinu“ er orðið eitthvert hið minnsta í Evrópu og hagvöxtur er einhver sá mesti í Evrópu þrátt fyrir krónu, eða líklega ætti maður að segja vegna krónu.

Krónuna þarf þó að laga. Hún þarf að virka eins fyrir alla og stuðla að aga í ríkisfjármálum. Refsa þegar teknar eru óskynsamlegar ákvarðanir og verðlauna fyrir ráðdeild. Verðtryggingin er hins vegar farin að koma í veg fyrir eðlilega virkni krónunnar, en sérfræðihópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum vinnur nú að því að bæta þar úr. Aukinn útflutningur og verðmætasköpun innan lands munu styrkja krónuna á ný og bæta lífskjör.

Ferðaþjónusta gengur vonum framar. Hvað gjaldeyristekjur varðar er ferðaþjónustan nú nánast jöfn áliðnaði og sjávarútvegi og vaxtarmöguleikarnir eru miklir. Iðnaðarráðherra mun á þessu þingi leggja fram frumvarp um gjaldtöku af ferðamönnum til að standa undir kostnaði vegna uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum.

Ríkisstjórnin mun verja hina einstöku, fögru og hreinu íslensku náttúru og vinna að því að Ísland miðli af þekkingu og reynslu og verði enn meiri fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum en nú er.

Ef við Íslendingar ætluðum að framleiða þá raforku sem við framleiðum nú þegar á umhverfisvænan hátt en gera það með brennslu kola þyrftum við að flytja inn og brenna hátt í 8,5 milljónir tonna af kolum árlega. Við þyrftum að brenna 26 tonn af kolum á hvern einasta Íslending á ári. 26 tonn á mann! 63 þingmenn þyrftu meira en 1.600 tonn fyrir sína hlutdeild í raforkuframleiðslunni. Allur þessi salur — þótt hátt sé til lofts — dygði ekki til að hýsa allt það kolamagn sem þyrfti að brenna bara fyrir þessa 63. Það tekur bara til raforkuframleiðslunnar en ekki til húshitunar og annarrar orkuframleiðslu. Það er því vert að minnast þess að íslensk orkuframleiðsla er ein sú umhverfisvænsta í heiminum og í því felast gríðarleg verðmæti.

Sjávarútvegur mun þegar allt er talið skila ríkissjóði meiri tekjum en nokkru sinni fyrr. Gagnstætt því sem ráða mátti af háværri og villandi umræðu á sumarþinginu er gert ráð fyrir að veiðigjöld skili jafn miklum tekjum á yfirstandandi fiskveiðiári og því síðasta. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun leggja fram frumvörp um breytingar á fiskveiðistjórn og gjaldtöku af sjávarútvegi sem saman eiga að tryggja samfélaginu hámarksávinning af greininni.

Á Íslandi hefur tekist að gera sjávarútveg í senn að arðbærri og umhverfisvænni grein á meðan sjávarútvegur í mörgum Evrópulöndum felur í sér ríkisstyrkta rányrkju. Nú þegar íslenskur sjávarútvegur getur á ný farið að gera ráð fyrir stöðugleika og fyrirsjáanleika er ekkert að vanbúnaði að hefja mikla fjárfestingarsókn í greininni. Íslenskur sjávarútvegur og tengdar greinar eru vettvangur stórkostlegrar nýsköpunar og búast má við áframhaldandi fjölgun verðmætra starfa í sjávarklasanum.

Á undanförnum árum hef ég oft rætt um þau sóknarfæri sem liggja í íslenskri matvælaframleiðslu í ljósi þess að gera mætti ráð fyrir stöðugt vaxandi eftirspurn eftir matvælum í heiminum og hækkandi verðlagi á meðan aðstæður til matvælaframleiðslu færu víða versnandi. Nú þegar blasa áhrifin við. Eftirspurn eftir íslenskum mjólkurvörum er mikil, kjötframleiðendur eiga möguleika á að markaðssetja vörur sínar á hágæðamörkuðum og útflutningur á íslensku grænmeti er að verða vænlegur kostur. Sé búið vel að íslenskum matvælaframleiðendum mun greinin ekki aðeins skipta sköpum við gjaldeyrissparnað, hún getur orðið ein af stóru gjaldeyrisskapandi greinunum.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að búa í haginn fyrir nýtingu þeirra tækifæra sem skapast vegna þróunarinnar á norðurslóðum. Ekkert ríki á meira undir farsælli þróun þessara mála en Ísland og norðurslóðamál eru lykilatriði í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eins og glöggt sést í stjórnarsáttmálanum.

Þróun þeirra mála sem heyra undir norðurslóðamál hefur líka verið hraðari en flesta óraði fyrir. Enn berast jákvæðar vísbendingar um hugsanlegar olíu- og gaslindir á Drekasvæðinu og siglingaleiðin yfir norðurskautið opnast svo hratt að Kínverjar stefna nú að því að eftir aðeins sjö ár fari allt að 20% af vöruflutningum þeirra til Vesturlanda yfir norðurskautið. Eitt af stærstu hafnarfyrirtækjum Evrópu, Bremenhafnir, hyggst nú hefja umfangsmiklar rannsóknir til að meta hvort Ísland sé ákjósanlegur staður fyrir nýja heimshöfn.

Til að hægt verði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem birtast okkur í öllum landshlutum er mikilvægt að styrkja innviði um allt land; heilbrigðisþjónustu, skólahald og aðra opinbera þjónustu, fjarskipti, raforkuflutning og samgöngur. Að því mun ríkisstjórnin vinna allt þetta kjörtímabil.

Áformað er að 500 millj. kr. verði varið í að efla löggæslu þegar á næsta ári. Hafin er vinna við að auka net- og upplýsingaöryggi á Íslandi og til skoðunar eru leiðir til að verja börn fyrir einelti og öðru ofbeldi í heimi þar sem samskipti fara að miklu leyti fram á netinu.

Heilbrigðisþjónusta er ein mikilvægasta stoð samfélagsins. Ríkisstjórnir skipaðar þeim flokkum sem mynda núverandi ríkisstjórn byggðu upp heilbrigðisþjónustu sem alþjóðastofnanir töldu eina þá bestu, jafnvel þá albestu, í heimi. Heilbrigðiskerfið hefur hins vegar látið á sjá eftir ítrekaðan niðurskurð undanfarinna ára. Þessum mikla niðurskurði er nú lokið en ljóst er að breytinga er þörf til að íslenskt heilbrigðiskerfi geti verið samkeppnishæft við nágrannalöndin. Við erum öll sammála um að markmiðið sé að byggja heilbrigðiskerfið upp að nýju. Lítið samfélag má ekki við því að heilbrigðisstarfsfólk vilji heldur sækja betri vinnuaðstæður og kjör í öðrum löndum.

Til að ná þeim markmiðum þarf að vinna langtímastefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið og forgangsraða í þágu uppbyggingar þar á næstu árum. Meðal þess sem gera þarf til að bæta þjónustuna er að stýra flæði sjúklinga milli heilsugæslu, sérfræðinga og sjúkrahúsa með hliðsjón af þjónustuþörf en þar gegnir heilsugæslan lykilhlutverki, ekki hvað síst á landsbyggðinni.

Vandi heilbrigðiskerfisins hverfur ekki á einni nóttu. Til að ná þeim markmiðum sem við erum sammála um að séu nauðsynleg þarf mikla vinnu, fjármagn og samstöðu á næstu árum um að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Ekki er annað að heyra á þingmönnum stjórnarandstöðunnar en að þeir séu tilbúnir til að styðja slíka forgangsröðun í fjárlagavinnunni sem nú er að hefjast, hvað sem líður forgangsröðun undanfarinna ára. Þingmenn meiri hlutans geta því vænst stuðnings stjórnarandstöðu við slíkar tillögur.

Viðamikil verkefni blasa við á sviði almannatrygginga og framlög til þeirra og annarra velferðarmála stóraukast. Áfram verður haldið við að afnema skerðingar sem lífeyrisþegar urðu fyrir árið 2009, meðal annars með því að fella úr gildi skerðingarhlutfall tekjutryggingar.

Mikilvægt er að byggja upp íslenskt menntakerfi. Unnið er að greiningu á stöðu og stefnu sem lögð verður fyrir í hvítbók sem hugsuð er sem grundvöllur samráðs og ákvarðana um aðgerðir. Meðal annars er stefnt að því að fleiri nemendur ljúki framhaldsskólanámi á skemmri tíma en nú er, en því getur fylgt margvíslegur þjóðhagslegur ávinningur. Jafnframt er unnið að endurskoðun háskólastigsins með það að markmiði að auka gæði og bregðast við þörfum samfélagsins.

Hverri sjálfstæðri þjóð er mikilvægt að þegnarnir geti notið menningar og lista og að hlúð sé að tungumálinu. Öflugt listalíf leggur grunninn að skapandi atvinnugreinum, laðar að ferðamenn og leggur sitt af mörkum til öflunar gjaldeyristekna. Ríkisstjórnin mun standa vörð um skapandi greinar þrátt fyrir aðhald og vill á komandi árum sækja þar fram svo eftir verði tekið.

Góðir Íslendingar. Smæð þjóðarinnar getur veitt okkur möguleika sem stærri ríki skortir. Lítið samfélag á til dæmis auðveldara með að vinna samhent að sameiginlegri framtíðarsýn. Og slíkt getur þegar upp er staðið reynst okkur Íslendingum ákaflega gæfuríkt. En þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi, þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði og líta á hvern þann vanda sem upp kemur í samfélaginu fyrst og fremst sem tækifæri til að innleiða þær öfgar. Íslandssagan í meira en 1100 ár sýnir að þegar við Íslendingar höfum trú á landinu okkar og okkur sjálfum og þegar okkur auðnast að standa saman en látum ekki sundrung og niðurrifsöfl draga úr okkur þrótt, þá farnast okkur vel.

Nú stöndum við, rúmlega 300 þúsund manna þjóð, frammi fyrir tækifæri til að gera landið okkar að sannkölluðu fyrirmyndarlandi, framfarasinnuðu landi þar sem hugað er að velferð allra, þar sem auðlindir eru nýttar í sátt við náttúruna og samheldið og hamingjusamt fólk lifir í öryggi alla sína daga. Að því skulum við vinna, þingmenn, hvar í flokki sem við stöndum, af djörfung og reisn, með trú á framtíð Íslands að leiðarljósi.