143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem vekur athygli í þessu frumvarpi þegar farið er að lesa það yfir. Eitt af því sem þar kemur fram er auðvitað það sem lýsir svolítið muninum á því hægra og vinstra.

Það sem mig langaði að byrja á að velta hér upp með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra varðar tekjuskattinn og áhrif hans annars vegar á ríkissjóð og hins vegar til handa heimilunum af því að þar kemur það kannski sérstaklega fram, eins og við höfum mikið verið að ræða, að þeir sem mest hafa fá mest.

Á forsíðu RÚV í morgun mátti sjá þennan útreikning. Það var aðeins rætt hér í gærkvöldi líka hvað kennarinn sem væri með byrjunarlaunin fengi út úr þessu á mánuði. Þeir sem eru með 300 þús. á mánuði fá 372 kr. Þeir sem hafa hins vegar 800 þús. fá 3.984 kr. sem bætist við vegna lækkunarinnar upp á 0,8%. Og áfram standa þeir í stað sem minnst hafa.

Í þessu litla riti, Stefna og horfur, hefur verið boðað að þetta sé fyrsta aðgerðin í þessa átt. Þar talar hæstv. ráðherra um að einfalda kerfið og fella saman. Mig langar að spyrja hvort næstu skref ríkisstjórnarinnar geri ráð fyrir því að einungis verði þessi tvö þrep sameinuð og í hvaða átt, þ.e. verða tekjuviðmiðin hækkuð eða hvað, hverjar eru hugmyndirnar? Er líka hugsunin að hafa hátekjuskatt eða á eingöngu að láta þá sem meira hafa halda áfram að njóta?