143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, ég er innilega sammála hæstv. ráðherra um að það er umræða sem þarf að taka hvort ekki eigi almennt að greiða gjald fyrir afnot af auðlindum. Ég held að það hljóti að vera það sem við þurfum að ræða í framtíðinni.

Í fyrri ræðu minni lagði ég áherslu á að sjávarútvegurinn er aflögufær og þess vegna ber honum að greiða til samfélagsins. Hið sama verður ekki sagt um landbúnað. Ég held að óhætt sé að segja að landbúnaði verður ekki haldið uppi hér á landi nema með einhverjum niðurgreiðslum eða styrkjum. En það er ekki sama hvernig þeim greiðslum til landbúnaðarins er háttað og allt annað en sjálfgefið að þær greiðslur eigi að vera svo háar sem raun ber vitni.

Mér er engin launung á því að ég hefði kosið að ráðist yrði í endurskoðun á greiðslum til landbúnaðarins á síðasta kjörtímabili, en því miður ræð ég ekki öllu. Á næsta ári eru tæplega 12 milljarðar áætlaðir í greiðslur vegna búvöruframleiðslu og rúmar 500 milljónir fara til Bændasamtakanna til að halda uppi ýmiss konar starfsemi. Það er staðreynd að framleiðni í landbúnaði er lág og er nauðsynlegt til framtíðar að gera ráðstafanir til þess að framleiðnin aukist. Í nýlegri skýrslu frá OECD kemur fram að framleiðni er með minnsta móti hér á landi í ríkjum þeirra samtaka. Því þarf að breyta og það verður gert með því að auka samkeppni í landbúnaðinum og breyta styrkjafyrirkomulaginu.

Í tilefni af þessari nýju skýrslu OECD segja Bændasamtökin að þau skorist ekki undan umræðum um breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka Bændasamtökin á orðinu og hefja alvarlegar viðræður um með hvaða aðferðum megi auka framleiðni í landbúnaði og hvort aðstoð frá ríkinu til að styðja við að lífvænlegt sé í dreifbýlinu geti falist í því að veita peninga í annað en búvöruframleiðslu.